145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt, þær lágu fjárhæðir sem fara þarna inn eru áhyggjuefni. Ég kann samgönguáætlun ekki eins vel og hv. þingmaður, en ég veit þó að hér er verið að fara í framkvæmdir sem ekki eru þar inni. Ég man til dæmis ekki eftir að það hafi verið forgangsmál — og ætla ég þá ekki að draga í efa að það þurfi að gera þetta, bara svo það sé sagt. Hér er til dæmis um að ræða að veitt verði fé í brú yfir Þverá, lagfæringar á vegi yfir Norðlingafljót og Helluvað og í lagfæringar á Tindastólsvegi — ég er ekki viss um að þetta hafi verið í fyrsta áfanga í forgangi, ekki eftir því sem ég man.

Þetta á líka við um hafnarframkvæmdirnar, það sem er sett í Hafnabótasjóð. Þar er líka verið að taka út og fjárlaganefnd er að gera tillögu um að Vegagerðin geri eitthvað. Ég ætla ekki að segja að ekki hafi verið haft samband við Vegagerðina um að þetta væri framkvæmanlegt, ég ætla fólki ekki að hafa ekki gert það, en þetta er að minnsta kosti ekki samkvæmt óskalista Vegagerðarinnar. Í fyrsta lagi fór þetta ekki fram, eins og við þekkjum, í gegnum hið hefðbundna ferli. Það er það sem er alvarlegast í þessu. Eins og ég sagði áðan erum við með þjóðvegina án bundins slitlags, þeir eru nánast óökufærir vegna lélegs ástands. Það er verið að aka með skólabörn á þessum vegum sem er algjörlega óboðlegt. Auðvitað á að ganga í það. Á milli Bakkafjarðar og Þórshafnar er líka afar erfiður vegur. Hér er einhvers staðar talað um að gera eigi tillögu um að prófa ódýrari framkvæmd — þó að ég hafi áhyggjur af því að menn ætli að fara í ódýrari framkvæmdir getur vel verið að hægt sé að gera það þar sem umferð er lítil, ég skal ekki segja.