145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona vissulega eins og hv. þingmaður að téð nefnd fari að skila niðurstöðum með þeim fyrirvara að tillögurnar séu vel unnar að það komi ekki niður á gæðum þeirra ef ýtt er of mikið á eftir þeim. Mér skilst varðandi þetta kerfi að samspil ríkis og sveitarfélaga í þessum málaflokki geti flækt hlutina ansi mikið. Það er nokkuð sem ég tel að taka verði á. Sömuleiðis verð ég að taka undir með hv. þingmanni og að ég hváði þegar hæstv. fjármálaráðherra talaði hér um örorkubætur eins og þær væru í raun og veru atvinnuleysisbætur, eins og þær væru eitthvað sem maður þyrfti bara í einhvern ákveðinn tíma og færi síðan aftur út á vinnumarkaðinn, sem er auðvitað oft ekki tilfellið. Örorka er mjög oft varanleg og vissulega oft til lengri tíma. Það er ekki eðlilegt að við ákveðum sjálfkrafa að fólk sem ýmist fæðist fatlað eða fatlast á lífsleiðinni eigi að vera fátækt það sem eftir er. Sömuleiðis skilst mér að það sé einfaldlega ekki rétt sem hæstv. ráðherra sagði að það væri til fólk sem ynni allan daginn, en fengi samt minna borgað en öryrkjar. Getur verið að það sé rétt?