145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Að mínu mati hefur formaður Sjálfstæðisflokksins staðið fyrir alveg ótrúlega sérkennilegri umræðu undanfarinn sólarhring. Í samtali við formann Samfylkingarinnar, Árna Pál Árnason, í fyrirspurnatíma segir hæstv. fjármálaráðherra beinlínis að við samfylkingarfólk þurfum að koma því inn í hausinn á okkur að hvatar skipti máli. Í hvaða samhengi segir hann þetta? Hann segir það þegar hann er inntur eftir því hvort hann telji ekki eðlilegt að fólk sem þarf að reiða sig á lífeyrisgreiðslur frá hinu opinbera fái sambærilegar upphæðir og þeir sem þurfa að lifa af lágmarkslaunum. Viðbrögð fjármálaráðherrans við þessum spurningum eru þau að það sé eins og við samfylkingarfólk séum treg og skiljum ekki að það þurfi að vera einhvers konar hvatar í kerfinu. Þá spyr ég: Hvatar fyrir hverja? Hvatar fyrir þá sem hafa skilað sínu dagsverki og fá núna laun frá samfélaginu á sínum efri árum? Hvernig hvata ætlar hæstv. fjármálaráðherra að láta þetta fólk hafa og hvata til hvers? Hvaða hvata getur fjármálaráðherra galdrað fram úr erminni handa þeim sem eru langveikir eða lifa við fötlun og geta ekki aðrar bjargir sér veitt en að þiggja lifibrauð sitt frá hinu opinbera? Hvaða hvata getur þetta fólk fengið til að gera hvað? Hvernig hvetur maður öryrkja sem hugsanlega eru með langvinna sjúkdóma eins og MS? Hvernig hvata ætla menn að setja inn í kerfið til að þetta fólk geti — hvað, farið að vinna?

Virðulegi forseti. Þarna fannst mér fjármálaráðherrann sýna okkur að hann hefur ekki hugmynd um hvað þessi málaflokkur snýst um og við hvaða aðstæður þetta fólk býr. Í þessum stól talaði hann í morgun eins og að allir þeir sem fá örorkulífeyri í dag séu ungir karlmenn sem hafa fest sig utan vinnumarkaðar og séu þar af leiðandi á örorkulífeyri. Ég get fullyrt að ef hæstv. fjármálaráðherra mundi skoða tölurnar sæi hann að sá hópur er mjög lítill af þeim stóra hópi öryrkja sem er á Íslandi. Við erum ekki hér á landi með fleiri öryrkja en gengur og gerist annars staðar. Þetta er fylgifiskur þess að reka samfélag, það er fólk sem býr við alls konar aðstæður og þá er það okkar verkefni að veita því lífsbjörgina, sjá um að það geti haft það bærilegt. Mér finnst þetta viðhorf alveg skelfilegt, svo ég segi ekki meira, og ég vona að ráðherrann fari í að skoða hvernig þessir hópar eru samsettir og hvaða fólk það er sem hann segir að við samfylkingarfólk þurfum að fara að koma inn í hausinn á okkur að þurfi einhverja hvata til að koma sér af því að þurfa þennan lífeyri. Það fólk sem við erum hér að berjast fyrir og höfum staðið upp á endann til að tala máli í þessum þingsal er það fólk sem hefur sinnt ævistarfi sínu úti á vinnumarkaðnum og er núna komið á sín efri ár, á ekki mikinn lífeyri og lifir á launum úr sameiginlegum sjóðum. Finnst okkur það ekki sanngjarnt? Auðvitað er það sanngjarnt, þetta er fólk sem er búið að skila sínu til samfélagsins og gott betur.

Svo er hinn hópurinn, fólk sem getur ekki unnið á almennum vinnumarkaði af óviðráðanlegum orsökum, vegna langvinnra sjúkdóma eða fötlunar. Fyrir það fólk vill hæstv. fjármálaráðherra hafa hvata í kerfinu. Þetta sýnir svo vel hversu ólíka sýn við jafnaðarmenn annars vegar og ríkisstjórnarflokkarnir hins vegar höfum á velferðarkerfið. Við lítum svo á að það sé skylda okkar að sjá farborða þeim sem ekki geta unnið fyrir sér sökum langvinnra sjúkdóma eða fötlunar þannig að þau geti lifað með reisn í samfélaginu. Er of mikil krafa að ætlast til þess að þau haldi að minnsta kosti í við lágmarkslaun í landinu? Það finnst okkur ekki, það er algjört lágmark. Hvaða upphæðir erum við þarna að tala um? Um hvaða upphæðir erum við að tala í raun og veru fyrir þessa hópa? Við erum að tala um að öryrkjar eða eldri borgarar sem eru í sambúð og hafa engar tekjur úr lífeyrissjóðum eða atvinnutekjur fá 170 þús. kr. nettó á mánuði. Þeir sem búa einir fá 192 þús. kr. á mánuði. Ekki nokkur maður getur séð fyrir sér á þessu. Það vitum við öll sem erum hér inni. Á bak við þessar tölur eru ekki örfáir aðilar sem hafa slysast inn í þessa stöðu. Þetta eru stórir hópar Íslendinga, þúsundir einstaklinga. Þeir sem fá einhverjar lífeyristekjur ná þá aldrei að vera með það háar tekjur að það fari langt upp í 300 þúsund. Stórir hópar fá kannski nettó út 210–240 þúsund til að lifa af á mánuði. Þetta er fólk sem er búið að skila sínu ævistarfi hér á landi og á að geta haft það gott á sínum efri árum. Við eigum að sjá til þess og þess vegna stöndum við hér. Það getur vel verið að stjórnarþingmönnum þyki óttalega leiðinlegt að hlusta á okkur, að við séum með leiðindi og séum fyrir þeim í ákvarðanatöku þeirra, en okkur finnst þetta stórmál. Því hefur verið hent í okkur að við ættum ekki að segja mikið vegna þess að við hefðum skert þessa hópa svo mikið þegar við vorum hér með velferðarmálin, en við vörðum alltaf og hækkuðum lægstu hópana. Skerðingarnar, sem nota bene voru tímabundnar þegar hér áraði sem verst, komu þá niður á þeim hópum sem voru með 300 þús. kr. út úr lífeyrissjóði eða meira. Enginn undir því marki fékk á sig skerðingu. Síðan voru þeir sem voru með atvinnutekjur.

Virðulegi forseti. Grunnlífeyririnn hækkaði hins vegar og þegar menn segja að það séu engin fordæmi fyrir afturvirkum greiðslum, þ.e. að hækkanir komi inn á miðju ári, er það einfaldlega rangt. Árið 2011 urðu launahækkanir í landinu og þeim skilaði þáverandi ríkisstjórn til lífeyrisþega beinlínis með hækkunum á miðju ári 2011. Á árinu 2011 hækkaði lægsti lífeyrir um tæplega 20 þús. kr. Menn geta ekki skýlt sér á bak við svona rangar fullyrðingar. Mig langar að spyrja þann þingmann hér inni sem tilheyrir stjórnarflokkunum ef við leggjum til hliðar alla umræðu um prósentuhækkanir eða hver gerði mest eða minnst, met eða ekki met o.s.frv., og spyrjum okkur bara samviskuspurningarinnar: Teljum við sem hér erum inni í alvöru að 192 þús. kr. dugi nokkurri manneskju til að greiða af húsnæði, eiga fyrir fæðu og því að lifa hér á landi með reisn? Ef við svörum þeirri spurningu neitandi, sem við gerum sannarlega, er þá ekki ráð að í staðinn fyrir að standa í þessu karpi hér með hnefann hvert á móti öðru að setjast niður og reyna að gera einhverja áætlun til að hækka þessa hópa þannig að þeir geti raunverulega lifað með reisn? Við getum það alveg, við höfum boðið þessari ríkisstjórn það og á okkur hefur ekki verið hlustað. Við fengum skvetturnar frá formanni Framsóknarflokksins hér í dag. Hvernig svaraði hann óskum okkar? Hann svaraði okkur með því að það væri ekkert í boði fyrir stjórnarandstöðuna eins og þessi barátta okkar snúist eitthvað um okkur. Hún snýst ekkert um okkur, hún snýst um það fólk (Forseti hringir.) sem ég var að tala um hér.