145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur ræðu hennar sem snerist auðvitað um það sem við getum kallað stærsta mál þessarar fjármálaumræðu, þ.e. kjör lífeyrisþega.

Ég verð að segja að mér finnst margar hugmyndir hafa farið á flot hér í umræðunni um þá stöðu til að mynda að það sé ekki eðlilegt að þessir hópar séu jafnsettir lægstu launum því að það skapi ekki hvata. Hv. þingmaður ræddi það sérstaklega. Mig langar aðeins að reifa það. Nú er það svo að þeir hópar velja sér ekki hlutskipti sitt, það velur sér enginn örorku að hlutskipti, það velur sér enginn svo sannarlega að verða gamall. Þótt maður vilji gjarnan verða gamall þá velur maður ekki það hlutskipti.

Komið hefur fram í svari við fyrirspurn frá hv. varaþingmanni Samfylkingarinnar, Ernu Indriðadóttur, að 70% eldri borgara eru með undir 300 þús. kr. í tekjur. Mig langar að biðja hv. þingmann að reifa það aðeins betur hvernig hún vill svara þessu með hvatana, þ.e. hvort ástæða sé til að efla á einhvern hátt virkni þessara hópa. Galli er við þá aðferðafræði að ég tel, og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér.

Við höfum til dæmis séð þetta núna hjá breskum stjórnvöldum að þau hafa lagt mjög mikla áherslu á að hvatatengja bætur út frá bótasvikum sem þó eru samkvæmt mati þarlendra stjórnvalda að mig minnir um það bil 0,7% af útgreiddum bótum, um það bil hundraðfallt minni svik en til dæmis skattsvik svo dæmi sé tekið. Hvatarnir hafa hins vegar haft þau áhrif að við höfum séð talsvert af ótímabærum dauðsföllum á Bretlandseyjum þar sem fólk leggur svo mikið á sig til að sækja einhvers konar virkni eða störf eða eitthvað slíkt að það hreinlega kýs fremur að stytta sér aldur. Ég man til að mynda frétt sem birtist í fyrra af manni sem fékk hreinlega hjartaáfall (Forseti hringir.) eftir að hafa verið dæmdur alheilbrigður til að sinna erfiðisvinnu. (Forseti hringir.) Hverjar telur þingmaðurinn hætturnar við slíka hvata?