145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:57]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðunni í morgun þegar hæstv. fjármálaráðherra fór að tala um hvatana í tengslum við örorku og ellilífeyri ákvað hann að minnast á og segja okkur í Samfylkingunni að við hefðum átt að hlusta á borgarfulltrúann okkar fyrrverandi, Björk Vilhelmsdóttur. Björk Vilhelmsdóttir talaði aldrei um að þeir sem væru á örorku eða ellilífeyri þyrftu á einhverjum sérstökum hvötum að halda, heldur var hún þar að tala um þá sem eru hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna, sem er stundum sami hópur en oft ekki.

Ég held að þeir sem eru komnir á örorku séu ekkert þar bara að gamni sínu. Ég skil ekki alveg þessa umræðu um hvatana. Ef við horfum á hóp öryrkja þá minnir mig að tölurnar séu þær að þetta sé kannski 16 þús. manns, eitthvað svoleiðis, og eingöngu brot af því er ungt fólk. Það að tengja þetta við og gefa þá mynd að þetta séu meira og minna ungir karlmenn sem hafi dottið út af vinnumarkaðnum og annað slíkt gefur bara ekki rétta mynd af stöðunni.

Þegar verið er að tala um hvata þá skil ég það bara ekki og mig langar mest að spyrja fjármálaráðherrann hvernig hann ætli að hvetja einhvern sem er langveikur, til dæmis með MS eða annan slíkan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, til að fara út á vinnumarkaðinn. Hvernig ætlar hann að fara að því, hvaða hvata getum við haft í kerfinu sem munu ekki hafa neikvæð áhrif fyrir viðkomandi einstakling? Við vitum öll hvernig þessi vinnumarkaður er. Ætlast er til að menn skili miklu dagsverki og það eru ekki allir (Forseti hringir.) sem geta það, líkamlega, eins og hv. þingmaður bendir á.