145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að í umræðunni sé nefnilega verið að rugla saman ólíkum hópum, eins og hv. þingmaður kemur hér réttilega að, þ.e. þeim sem eiga við tímabundna erfiðleika að stríða og þurfa hjálp, stuðning við að koma sér aftur á rétta braut, og hinum sem eru dæmdir til örorku eða elli, eins og ég kom að áðan, og eru í ástandi sem er erfiðara að komast út úr. Að sjálfsögðu geta réttu hvatarnir hjálpað til við þá sem eiga við örorku að stríða en það skiptir þá máli hvernig þeir eru hugsaðir.

Þess vegna finnst mér líka skjóta skökku við að horfa upp á það hvernig þrengt hefur verið að hlutverki framhaldsskólanna í sömu fjárlögum og við erum að ræða þetta, sem hafa mjög miklu hlutverki að gegna. Þar hefði ég til dæmis viljað sjá í staðinn fyrir að skerða þátt þeirra í að taka á móti eldri nemendum eins og gert hefur verið, að styrkja þá fremur í að veita nemendum sínum þann stuðning, sálfélagslega stuðning sem þarf. Ég held nefnilega að þegar við erum að tala um hvata þá skortir okkur víða í samfélaginu stuðning við fólk sem á bágt. Sálfélagslegar orsakir eru til dæmis helsta orsök fyrir brottfalli úr framhaldsskólum ef marka má þær greiningar sem OECD hefur verið að vinna með menntamálaráðuneytinu. Við ættum að vera að vinna að því að koma aðilum inn í framhaldsskólanna til að veita nemendum þar stuðning til að styrkja þá við að ljúka námi. Ég held að slík aðgerð ein og sér gæti skapað mjög jákvæða hvata fyrir fólk til að halda áfram námi eða fara út á vinnumarkað.

Sú hugmyndafræði að skilyrða stuðning við veikt fólk með einhverjum slíkum hætti og gera því í raun erfiðara fyrir að komast af, það finnst mér hins vegar óhugnanleg hugmyndafræði. Ég held að þarna þurfi að gera greinarmun á bæði ólíkum hópum en líka hvernig við nýtum hvatana. Mér fyndist áhugavert að heyra aðeins í hv. þingmanni um þá hugmyndafræði.