145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú erum við farin að tala um hvata, miklu frekar en að ætla að svelta fólk út úr kerfinu sama hvernig ástatt er fyrir því. Ég held að það sé sá þáttur sem við þurfum að skoða vegna þess að oft er það þannig hjá þeim sem eru með örorku — það er breiður hópur fólks — að sumir geta unnið og tekið að sér einstaka verkefni og þó að þeir geti kannski ekki verið í fastri vinnu daglega og einhverri fastri rútínu eins og íslenskur vinnumarkaður kallar því miður ofsalega mikið á þá, geta margir tekið að sér einstök verkefni. Við eigum að koma því þannig fyrir að fólkið sé ekki refsað fyrir það, þ.e. að það séu hvatar til þess, eins og hv. þingmaður nefnir, og skoða þar skerðingar vegna atvinnutekna. Mögulega eigum við að hækka þar heimildir til að starfa án þess að skerðingar komi til. Það finnst mér algjörlega sjálfsagt og líka hjá þeim sem eldri eru.

Það er ákveðið svigrúm til þess að inna af hendi ákveðin störf eða fá tekjur annars staðar frá upp að ákveðnu marki. Við ættum þá frekar að skoða það fyrir alvöru að hækka þau mörk og fara vandlega yfir það vegna þess að það er hvati, en það er ekki hvati að halda öllum eins neðarlega og hægt er, þ.e. að láta fólk fá eins lág laun og hægt er og búa til einhvern hvata sem ganga á yfir alla línuna. Það refsar þeim sem ekki geta unnið fyrir sér á nokkurn hátt. Það væri frekar hvati að menn fengju almennilega eða réttláta upphæð sem hægt væri að lifa af og síðan yrði þá svigrúm fyrir þá sem innt geta af hendi einhverja vinnu, eins og hv. þingmaður nefndi.