145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla flokksbróður mínum, Össuri Skarphéðinssyni. Ég held að það sé alls ekki klókt að forseti hafi það vald að vísa manni úr þingsal. Hér væru þá væntanlega færri stundum, sumir sjaldnar en aðrir. Ég tek hins vegar undir það að forseti verður að fara varlega með það hvernig hann eða hún lemur í þessa klukku. Það er mikil alvara þegar ég segi að það er mjög vont þegar fólk horfir á þingfundi heima hjá sér og þar glymur í klukkunni. Það er mjög vont og ég held að það sé verra fyrir okkar sem erum komin af léttasta skeiði en fyrir hina þannig að ég ætla að biðja forseta að hafa þetta í huga í framtíðinni.