145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara halda því til haga að það er ekki af samúð með samþingsmönnum mínum sem ég kvarta undan þessu heldur fyrst og fremst fyrir hönd þeirra sem horfa á þetta á netinu. Ef þetta færi það mikið í taugarnar á hv. þingmönnum sem hér tala held ég að þeir mundu hemja sig aðeins betur og meira. Þetta verður hvimleitt þegar almenningur horfir á eða þingmenn, ef út í það er farið, eru að horfa á heima hjá sér í tölvunni. Þar er vandinn.

Útsendingar á netinu hófust talsvert seinna en bjallan hefur verið í notkun, enda er þar á ferð talsvert frumstæðari tækni. Mér finnst alveg þess virði að endurskoða það hvernig þessum aga er framfylgt hérna en einnig bendi ég á að það eru til tæknilegar lausnir á þessu. Það er hægt að sía út þetta hljóð og ég mundi óska þess að það yrði gert vegna þess að það er að mínu mati ótækt að áhorfendur sem fylgjast með þinginu séu með hausverk vegna þess að hér eru svo mikil læti. Af nógu er nú að taka í ræðum þingmanna sjálfra.