145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:22]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er ekki hægt að sleppa svona tækifæri þegar stjórnarliðar koma hingað til að ræða fundarstjórn forseta og eiga eitt pláss eftir eins og hv. þm. Karl Garðarsson gerði hér og nú. Þetta er eina tækifærið til að eiga samræður og spyrja spurninga. Hv. þingmaður talar eins og við höfum nægan tíma til að ræða það og það er alveg rétt og þess vegna ætla ég að spyrja hv. þingmann: Er hann stoltur af ríkisstjórn sinni, af því sem verið er að skammta hér naumt úr hnefa til aldraðra og öryrkja sem gerir það að verkum að greiðslur til þeirra hafa hækkað um 10 þús. kr.? Við skulum tala í krónum en ekki prósentum. Greiðslur hafa hækkað um 10 þús. kr. í stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar. Er hv. þingmaður stoltur af þessu?

Var hv. þingmaður að biðja um orðið um fundarstjórn forseta? Dugar þessi eina spurning? Ég heyri að hann játar því og þess vegna spyr ég aftur: Er hann stoltur af þessari 10 þús. kr. hækkun til aldraðra og öryrkja, (Forseti hringir.) úr 162 þús. kr. í 172 þús. kr. eins og ég fór í gegnum í ræðu minni áðan? (Gripið fram í: Það er …)