145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að okkur sé örlítill vandi á höndum í þessari umræðu vegna þess að við höfum komið hingað með tillögur um að bæta kjör eldri borgara og öryrkja upp í að lágmarki 300 þús. kr. en þær hafa verið felldar af hv. þingmanni og þingmönnum stjórnarflokkanna. Menn hafa hafnað því að taka slíkar tillögur til greina og núna kemur hv. þingmaður hingað og lýsir því yfir að þetta sé einmitt það (Forseti hringir.) sem hann vilji gera og ég velti því fyrir mér hvort forseti …

(Forseti (ValG): Hv. þingmaður er í efnislegri umræðu.)

Ég er að tala til forseta. Vegna þessa velti ég fyrir mér hvort forseti geti með einhverjum hætti komið því þannig til leiðar að við þingmenn getum raunverulega sest niður og náð þessum markmiðum sameiginlega, unnið tillögur inn í þetta fjárlagafrumvarp sem við erum hér að ræða til að ná þessu markmiði. Ég held að hv. þingmenn sem lýsa (Forseti hringir.) þessum markmiðum hér séu ekki að nýta tækifærið núna til að hefja þessar hækkanir í samræmi við launahækkanir í landinu, heldur eru tillögur þeirra á allt annan veg. Ég held að forseti ætti að hafa milligöngu um að menn geti náð markmiðum sínum í þinginu.