145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er eiginlega orðið mitt hlutskipti hér í kvöld að verja hæstv. forseta. Ég kem hingað til að biðja hv. þingmann um að horfa í gegnum fingur sér við þennan hæstv. forseta. Hún hefur efalítið séð að okkur þingmönnum er orðið mál að heyra afstöðu einstakra hv. þingmanna stjórnarliðsins og mér finnst betra að hv. þm. Karl Garðarsson geri það með röngu lagi, undir fundarstjórn forseta, en að koma í ræðu. Ég ímynda mér að hv. þm. Karl Garðarsson þori það einfaldlega ekki eftir að hafa hlustað á þær messur sem yfir honum hafa verið fluttar hér í kvöld. Ef hv. þingmaður vill frekar koma í skjóli forseta í umræður um fundarstjórn forseta til að skjóta inn einni og einni smápílu er ég bara þakklátur fyrir það.

Ég met hv. þingmann mikils, veit að í honum blundar réttlátt hjarta sem berst ótt og títt við að koma frá sér því sem hann raunverulega á við. Ég vænti þess að (Forseti hringir.) hæstv. forseti leyfi honum að skjótast hér á millum ræðna annarra til að ræða um fundarstjórn forseta og láta aðeins glitta í það sem honum finnst.