145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að skipta í þrennt ræðu minni sem er mín fyrsta ræða um fjárlögin, í fyrsta lagi að ræða aðeins almennt um þá breytingu sem ég tel hafa orðið á því hvernig við vinnum fjárlögin frá því að ég tók sæti á þingi 2007 og ég tel að einkennist af því að mjög stórar stefnumótandi ákvarðanir hafi verið teknar inn undir fjárlagaumræðuna. Að einhverju leyti tel ég það skýra af hverju þessi umræða hefur lengst talsvert frá því ég að tók hér sæti 2007 og mönnum hefur orðið tíðrætt um ýmiss konar umræðumet og gert mikið úr því. Ég tel hins vegar, og mun aðeins fara nánar yfir það á eftir, að það sé sjálfu sér ekki skrýtið við þær ákvarðanir sem er verið að taka nú orðið í gegnum fjárlög. Í öðru lagi mun ég reifa aðeins þau stóru mál sem hafa verið til umræðu, sérstaklega af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Þá er ég að vitna í heilbrigðismálin, lífeyrisþega og Ríkisútvarpið. Í þriðja lagi langar mig síðan að ræða ýmiss konar smærri mál sem vekja athygli mína í breytingartillögum meiri hlutans sem ég tel að veki ýmsar spurningar um það aftur hvernig við vinnum fjárlög og hvaða ákvarðanir eru teknar í gegnum þau.

Fyrst aðeins um hina stóru stefnumótun. Ég hef gagnrýnt, og vil ítreka þá gagnrýni hér, að ég tel ekki mikinn brag á því í ljósi þess að fjárlagafrumvarp er lykilfrumvarp hvers stjórnarmeirihluta — í fjárlögum birtist pólitísk stefnumótun og forgangsröðun fjármuna sem er það sem drífur kerfið okkar áfram — að þegar við stöndum hér við umræðu fjárlaga séum við að afgreiða fjöldamörg mál í gegnum krónur og aura án þess að um þau hafi farið fram viðunandi pólitísk umræða á Alþingi. Við getum nefnt samgöngumál sem dæmi. Hér hefur engin samgönguáætlun verið samþykkt frá árinu 2012. Síðasta samgönguáætlun sem var samþykkt gilti til ársins 2012. (Gripið fram í.) Hér hafa verið lagðar fram samgönguáætlanir sem ekki hafa verið kláraðar. Enn hefur engin samgönguáætlun verið lögð fram á þessu þingi, en bæði í fjáraukalögum og svo í tillögum hér í fjárlagafrumvarpi eru settir fjármunir til samgöngumála án þess að það sé búið að fara yfir málið á réttum vettvangi. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd er ekki búin að fjalla um neina samgönguáætlun. Við erum með lögbundið ferli sem segir til um hvernig eigi að forgangsraða fjármunum til samgöngumála. Svo er bara ekkert farið eftir því lögbundna ferli en einhverjum fjármunum slumpað í þetta í gegnum fjárlög.

Við erum líka með lög sem segja að við eigum að gera aðgerðaáætlun um það hvernig við stöndum að málefnum þróunarsamvinnu. Hvar er sú áætlun? Þá áætlun sem var samþykkt síðast er búið að taka úr sambandi samkvæmt fjárlögum. Hér var lögð fram í júní síðastliðnum tillaga að áætlun sem var ekki samþykkt. Í fjárlögum er hlutfall af vergri landsframleiðslu orðið lægra en það var í þeirri tillögu sem við fengum að sjá hér frá hæstv. utanríkisráðherra í júní og það er engin tillaga komin fram. Alþingi Íslendinga hefur ekki tekið stefnumótandi pólitíska umræðu um það hvaða fjármunum eigi að verja til þróunarsamvinnu. Þetta eru bara tvö dæmi um það hvernig við erum að setja stefnumótandi ákvarðanir inn í gegnum fjárlög.

Ég get farið aftur í framhaldsskólana. Þar er tekin ákvörðun um að fylgja ákveðinni forgangsröðun við innritun í skóla. Ég er sammála því að það verður að fylgja einhverri forgangsröðun um innritun í skóla. Síðan er það pólitísk ákvörðun hversu miklum fjármunum við verjum til kerfisins sem ræður því hvort allir fá pláss eða ekki. Við síðustu fjárlög var tekin ákvörðun um að ekki fengju allir pláss og sagt: Þetta er forgangsröðun. Sú pólitíska ákvörðun er ekki tekin með því að við ræðum forgangsröðunina í þinginu eða hvort við séum sátt við það að ekki fái allir pláss, heldur er það gert í gegnum fjárlögin. Á þeirri aðferðafræði að setja stefnumótandi stórpólitískar ákvarðanir inn í gegnum fjárlög og jafnvel við 2. umr. fjárlaga, sem ég ætla ekki að kenna þessari ríkisstjórn sérstaklega um en ég er þó algjörlega sannfærð um að hefur breyst marktækt á átta árum, er enginn bragur og það eitt og sér gerir það að verkum að við erum ekki að taka umræðuna á réttum vettvangi. Fagnefndir þingsins sitja afskiptar í málaflokkum sem varða þær. Ég nefni utanríkismálanefnd þegar kemur að framlögum til þróunarsamvinnu. Ég nefni hv. umhverfis- og samgöngunefnd þegar kemur að samgönguáætlun. Ég nefni allsherjar- og menntamálanefnd sem ætti auðvitað að ræða hér hvaða stefna það er að taka ekki alla nemendur inn í framhaldsskólana — en við erum að gera þetta í gegnum fjárlögin. Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir okkur hvort við viljum vinna með þessum hætti.

Mín skoðun er sú, frú forseti, að betur hefði farið á því að við hefðum átt umræðuna um samgöngumálin í umræðunni um samgönguáætlun og umræðu um framlög til þróunarsamvinnu í umræðum um áætlun um þróunarsamvinnu. Þar með stæðum við ekki hér og ræddum í raun og veru allt sviðið, ef svo má að orði komast, í umræðum um fjárlög, heldur ættu fjárlögin fyrst og fremst að vera fullnusta þeirrar stefnumótunar og þeirrar umræðu sem hefði farið fram í þinginu.

Ég veit svo sem ekki hvort hv. þingmenn hafa áhuga á vinnubrögðum, mér finnst það vinnulag sem hér er viðhaft ekki benda til mikils áhuga á því. Hér eru þingmenn í forsætisnefnd Alþingis og ég velti fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að ræða þetta. Það er ekki gott verklag að setja allar ákvarðanir inn í fjárlög, ræða þau svo í marga daga rétt fyrir jól og koma þannig í veg fyrir að almenningur í landinu fái almennilegar upplýsingar um þær stefnumótandi ákvarðanir sem er verið að taka. Auðvitað verður umfjöllun um þessi mál hálfógagnsæ og loðin þegar við erum með allt undir í einu og í raun eru bara örfá atriði sem ná í gegn í umræðu til almennings. Við sáum til dæmis á málinu um framhaldsskólana sem ég nefndi áðan að fólk vaknaði til vitundar um það nokkrum mánuðum eftir að fjárlög voru samþykkt, steinhissa. Já, við vorum ræða þetta í fjárlögum í tiltekið marga daga í fyrra. Já, einmitt, er þetta rætt í fjárlögum? Það vinnur enginn svona, frú forseti.

Mér finnst full ástæða til að þingflokksformenn og forsætisnefnd eða einhver aðili hér sem hefur eitthvað að segja um það hvernig þessu þingi er stjórnað — ég veit í raun og veru ekki alveg hver það er en samkvæmt skipuriti ætti það að vera forsætisnefnd — taki þetta til umræðu. Það er bara ekki í boði að hunsa lögboðin ferli og fara fram hjá þeim með stórpólitísk mál. Um hvað snúast fjárlögin og um hvað snúast tekjuöflunarfrumvörpin sem við eigum eftir að ræða hér? Þau snúast um uppbyggingu samfélagsins, um það hvernig við dreifum og forgangsröðum þeim fjármunum sem við sækjum. Þau snúast um það hvaða fjármuni við sækjum og til hverra og þau snúast um það hvernig við skilgreinum siðað samfélag. Það er það sem fjárlögin eiga að skila okkur, þau eiga að skila okkur einhverju siðuðu samfélagi sambærilegu við þau samfélög sem við berum okkur saman við. Það er ekki gott að við séum að ræða alla þessa ólíku þætti í bendu. Eins og ég segi ættu fjárlögin að vera fullnusta þeirrar umræðu sem hefur farið fram á þinginu allt árið áður.

Mér finnst þetta sorgleg þróun, frú forseti, og mér finnst ástæða til að taka þetta til endurskoðunar. Ég var ekki hér í síðustu viku þar sem ég var að sinna öðrum störfum á vegum þingsins erlendis og ég veit ekki hversu mikið þetta hefur verið til umræðu hér, en mér finnst eiginlega hneyksli hvernig við afgreiðum þessi mál.

Ef við skoðum stóru línurnar í fjárlagafrumvarpinu, frumgjöldin án óreglulegu liðanna, og skoðum hlutfall samneyslunnar er alveg ljós hin pólitíska stefna þessa stjórnarmeirihluta. Samneyslan sem hlutfall af vergri landsframleiðslu er á niðurleið og það er verið að veikja tekjustofna samfélagsins. Þetta er pólitískt val og það var alveg ljóst þegar ríkisstjórnin tók hér við völdum að hennar pólitíska val og ákvörðun var að lækka skatta. Ég ætla ekki að nýta mínar örfáu mínútur hér í að rifja þá alla upp en ég get gert það á hundavaði. Auðlegðarskattinum var leyft að renna út. Orkuskattinum var leyft að renna út. Það var farið í að fækka þrepum í tekjuskatti. Í stuttu máli var farið í að lækka skatta á þá sem höfðu mest. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt til að auðlegðarskatturinn verði tekinn aftur upp og hann nýttur í að byggja nýjan Landspítala. Það er framkvæmd sem ég hefði talið að við ættum öll að geta verið sammála um. Það var ráðist í að lækka veiðigjöld og farið yfir það í ágætum nefndarálitum minni hlutanna í fjárlaganefnd hvernig tekjur ríkisins hafa dregist saman vegna lækkunar á veiðigjaldi. Það var farið í að hækka matarskatt þvert á vilja annars stjórnarflokksins, a.m.k. yfirlýstan vilja hans. Það var farið í það að hækka skatta á menningu, tónlist og bækur, en síðan var ákveðið að verja milljarði á næstu fimm árum í að byggja upp nýja opinbera stofnun til að efla lestur. Manni finnst stundum hvað rekast á annars horn í forgangsröðun stjórnarmeirihlutans. Tekjustofnarnir eru veiktir og samneyslan dregst saman og það er stóru línurnar í fjárlagafrumvarpinu. Um það snúast þær breytingartillögur sem minni hlutinn hefur lagt fram, það hvernig samfélag við viljum byggja, hvort við teljum okkur geta gert betur í að tryggja hér það sem ég kalla siðað samfélag.

Það sem hefur verið hér mest til umræðu þessa vikuna eru kjör lífeyrisþega. Stjórnarmeirihlutinn hefur réttilega bent á að þessir hópar fái verulega prósentuhækkun. Prósentuhækkunin segir bara ekki alla söguna. 9,4% hækkun skilar lífeyrisþegum rúmlega 13 þús. kr. á mánuði í auknar ráðstöfunartekjur. Ef við skoðum þennan hóp og þau gögn sem Öryrkjabandalagið hefur lagt fram sem hefur verið óþreytandi að minna okkur þingmenn á stöðu félagsmanna sinna eru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur öryrkja sem býr einn og fær greidda heimilisuppbót 187.507 kr., frú forseti. Sá sem býr með öðrum, 18 ára eða eldri, fær 172 þús. kr. Það sér hver maður að prósentuhækkun segir auðvitað bara hluta sögunnar hér.

Þetta fólk býr í sama samfélagi og við þingmenn. Þetta fólk þarf að fara í sömu búðirnar og við þingmenn förum í til að kaupa matinn. Þetta fólk þarf samkvæmt álitsgerð Öryrkjabandalagsins að lágmarki 348.537 kr. í ráðstöfunartekjur. Það gerir 482.846 kr. fyrir skatt. Þetta fólk þarf að gera allt það sama og venjulegt fólk gerir. Það þýðir ekki að tala um þessa hópa eins og þetta sé tímabundið ástand. Í hópi lífeyrisþega erum við með stóra hópa fólks sem hefur ekki getað verið á vinnumarkaði og er dæmt í þessa stöðu. Ég segi gjarnan að ekki nokkur maður velur sér örorku að hlutskipti. Ég styð það mjög að þessir hópar fái allan þann stuðning sem við getum veitt þeim sem samfélag til að hvetja þá til aukinnar virkni, en kerfið er ekki sérstaklega hvetjandi núna eins og við vitum þegar króna sem menn vinna sér inn skerðist um krónu á móti. Kerfið er ekki hvetjandi til þess að taka að sér hlutastörf, sérverkefni eða neitt slíkt til að auka tekjur og bæta kjör.

Við vitum líka samkvæmt þessari sömu álitsgerð Öryrkjabandalagsins að yfirgnæfandi hluti landsmanna vill að þessir hópar fái betri kjör. Ég veit líka að það kostar peninga, heldur betur, meira en 6 milljarða, en þegar við skoðum til að mynda alla þá skattstofna sem ég nefndi áðan, hvort sem þeir heita auðlegðarskattur, veiðigjöld eða orkuskattur, sýnir þetta auðvitað forgangsröðunina. Núverandi stjórnarmeirihluti hefur fremur valið að lækka skatta og gjöld um 10 milljarða en til dæmis að bæta kjör þessara hópa. Þannig eru staðreyndir málsins sama hvernig við snúum þeim, frú forseti.

Hvað eldri borgarana varðar erum við með ágætisgögn um þá líka. Ég vísaði í andsvari áðan til svars hæstv. velferðarráðherra við fyrirspurn hv. varaþingmanns Samfylkingarinnar, Ernu Indriðadóttur, þar sem fram kom að 70% eldri borgara væru með tekjur undir 300 þúsundum.

Tillaga minni hlutans snýst um að færa kjör þessara hópa í áföngum upp í 300 þús. kr. til samræmis við það sem gert hefur verið á vinnumarkaði. Hún snýst um að það kostar það sama að lifa óháð því hver staða manns er. Við þurfum að tryggja að tekjur fólks í þessu samfélagi dugi því fyrir mannsæmandi lífi.

Mig langar líka að gera heilbrigðismálin að umtalsefni. Þegar kemur að raunútgjöldum til heilbrigðismála á mann erum við í 15. sæti samkvæmt nýjum tölum frá OECD, 23. sæti þegar kemur að hlutfalli heilbrigðisútgjalda af landsframleiðslu sem er 8,7%, til samanburðar 11% í Svíþjóð og 10,4% í Danmörku. Nýtni þessara fjármuna er hins vegar mjög góð í okkar kerfi. Mér finnst mikilvægt að horfa til þess sem hefur komið fram hjá fulltrúum Landspítalans á fundum fjárlaganefndar og víðar, að forustumenn spítalans meta það svo að aukning á þjónustuþörf sé um 1,7% árlega vegna fólksfjölgunar og breyttrar aldurssamsetningar. Það er sem sagt ekki vegna neins annars en eðlilegra, lýðfræðilegra aðstæðna.

Það er ekki gert ráð fyrir þessari aukningu í fjárframlögum til spítalans. Annað atriði sem spítalinn hefur bent á er að ekki eru menn á eitt sáttir um útreikninga á kostnað við nýtt vaktaskipulag lækna sem var samið um í síðustu kjarasamningum og í ágætu nefndaráliti hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur sem er fulltrúi í fjárlaganefnd kemur fram að að mati velferðarráðuneytisins vanti 400 millj. kr. upp á að samningurinn sé að fullu bættur sjúkrahúsinu. Þarna erum við að tala um háar fjárhæðir sem minni hlutinn leggur til að spítalanum verði bættar.

Heilbrigðismálin, svo ég vitni aftur til skoðanakannana, eru sá málaflokkur sem landsmenn vilja forgangsraða. Mér finnst mjög mikilvægt að við hlustum eftir þeirri kröfu og forgangsröðum í þágu Landspítala – háskólasjúkrahúss í þessum fjárlögum og hlustum eftir þeim kröfum sem forsvarsmenn spítalans hafa sett fram.

Mig langar aðeins að gera Ríkisútvarpið að umtalsefni. Hér hefur verið umræða um og kom fram í sjöfréttum í kvöld, skilst mér, hjá hæstv. menntamálaráðherra að hann njóti ekki stuðnings við það að leggja fram frumvarp sem hann hafði áður boðað um að útvarpsgjald yrði ekki lækkað niður í 16.400 kr. Það vekur auðvitað furðu í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur ítrekað boðað þetta frumvarp, en eins og kunnugt er var tekin ákvörðun um að lækka útvarpsgjaldið við afgreiðslu frumvarps til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, afgreitt frá Alþingi 20. desember 2013, þvert á það sem hér hefur verið haldið fram um að lækkun útvarpsgjalds sé á ábyrgð síðustu ríkisstjórnar. Í 20. gr. þeirra laga sem ég vitna hér til kemur fram að gjaldið skuli einmitt vera 17.800 kr. á árinu 2015 og 16.400 á árinu 2016. Þessu hefur væntanlega enginn gleymt, ekki nokkur maður, því að við áttum heilmikinn orðastað um þetta í umræðu um fjárlög á síðasta ári.

Á árinu 2011 var ákveðið að útvarpsgjaldið yrði 18.800 kr. Sú tala var fest í ný útvarpslög. Í lögum um þær forsendur fjárlaga sem sett voru á árinu 2013 var gjaldið hins vegar fyrst hækkað upp í 19.400 kr. í samræmi við verðlagshækkanir og aðrar forsendur í þeim fjárlögum en síðan var lækkunin afgreidd sérstaklega. Ég tel þetta óráð og ég tel hæstv. menntamálaráðherra hafa fært ágætisrök fyrir því máli sínu að lækka ekki útvarpsgjaldið eins og stjórnarmeirihlutinn hafði áður ákveðið. Hann hefur meðal annars bent á að kostnaður við dreifikerfi sé umfram það sem spáð var. Hann hefur líka bent á að stjórnendur Ríkisútvarpsins hafi dregið saman í rekstri um 5% fyrir utan að hafa sett fram stefnumótun sem að minnsta kosti mér skilst, ég þekki það ekki, en mér hefur skilist á því sem komið hefur fram hjá hæstv. ráðherra að sé í takt við þær línur sem hann vill leggja þegar kemur að nýjum þjónustusamningi. Mig undrar að meiri hlutinn leggi það áfram á sig að lækka útvarpsgjaldið með þessum hætti í ljósi alls þess sem hefur komið fram síðan, bæði um niðurskurð í rekstri og þær áherslur sem verið er að setja Ríkisútvarpinu. Þetta kemur mér á óvart og það kemur mér á óvart að hæstv. ráðherra njóti ekki stuðnings þingflokkanna. Það kom einnig fram í þessum sama fréttatíma að forsvarsmenn stjórnarflokkanna hefðu gert hæstv. ráðherra það ljóst að frumvarp hans nyti ekki stuðnings þingflokka ríkisstjórnarinnar. Ég held að það liggi algjörlega fyrir að hæstv. ráðherra sé kominn í mjög einkennilega stöðu í stjórnarmeirihlutanum. Það verður mjög áhugavert að heyra hans svör við því ef það fer svo. Gefið var í skyn að verið væri að skoða einhverjar aðrar leiðir. Ég vona að sjálfsögðu að það komi eitthvað út úr því, en ég átta mig ekki á því hvernig á því stendur varðandi áðurnefnt frumvarp sem hæstv. ráðherra boðaði fyrir löngu að þetta sé skyndilega að koma upp núna hjá stjórnarmeirihlutanum. Ég átta mig ekki alveg á samskiptunum sem hafa átt sér stað og hvað verður eiginlega til þess að hæstv. ráðherra fær þetta í andlitið eftir að starfsáætlun Alþingis er lokið. Mér finnst þetta einkennileg vinnubrögð.

Ég sagði líka áðan að mig langaði aðeins að ræða það sem ég kallaði smærri mál, þó kannski ekki mjög smá. Ég veitti því eftirtekt að nokkrir hv. þingmenn hafa óskað eftir að koma í andsvar, þar á meðal fulltrúar frá stjórnarmeirihlutanum. Ég vonast til þess að þeir geti fundið einhverjar sekúndur í andsvörum sínum til að útskýra nokkuð fyrir mér. Hér er lagt til í breytingartillögum meiri hlutans að 75 millj. kr. verði veittar til að hefja undirbúning og hönnun að 4.500 fermetra skrifstofubyggingu fyrir Alþingi í stað leiguhúsnæðis. Þetta er í sjálfu sér hugmynd sem ég tel ágæta. Forsætisnefnd hefur látið reikna út að það geti verið hagkvæmara fyrir Alþingi til lengri tíma að reisa nýbyggingu í stað þess að leigja húsnæði. Ef raunin er að það sé hagkvæmari kostur fyrir Alþingi held ég að það sé eitthvað sem eigi að skoða. Það sem mér finnst áhugavert er að hér kemur svo fram í tillögunni, með leyfi forseta:

„Við undirbúning framkvæmda skal hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreitnum fullveldisárið 1918, samanber fyrirliggjandi teikningar Guðjóns Samúelssonar, fyrrverandi húsameistara ríkisins, og áform um minningarviðburði sem tengjast komandi aldarafmæli fullveldis Íslands.“

1. apríl síðastliðinn birtist frétt á forsíðu Fréttablaðsins þar sem greint var frá því að fyrir lægi þingsályktunartillaga einmitt um að byggja viðbyggingu við Alþingi í samræmi við teikningar Guðjóns Samúelssonar. Kom það ýmsum á óvart, ekki síst fulltrúum í forsætisnefnd sem hefur verið að undirbúa slíka nýbyggingu og alls ekki ætlað sér að hafa teikningar Guðjóns Samúelssonar til hliðsjónar við þá viðbyggingu. Ég var þann sama dag boðuð á fund í forsætisráðuneytinu af hálfu forsætisráðherra þar sem mér og öðrum formönnum stjórnarandstöðuflokkanna var kynnt þingsályktunartillaga í þremur liðum sem snerist um að ráðist yrði í byggingu Húss íslenskra fræða, að farið yrði í viðbyggingu við Alþingishúsið og ráðist í framkvæmdir á Þingvöllum. Ég sagði þá og get sagt aftur að ég studdi eindregið að ráðist yrði í byggingu Húss íslenskra fræða en furðaði mig á því að mál sem væri á forræði forsætisnefndar og væri satt að segja í allt öðrum farvegi væri komið í þennan farveg, þ.e. sérstaka þingsályktunartillögu um hús í tilteknum stíl. Ég spurðist líka fyrir um það hvort framkvæmdir á Þingvöllum væru í takt við það sem rætt hefði verið í Þingvallanefnd því að mér skildist síðar að svo væri ekki.

Ég spurði hæstv. forsætisráðherra út í afdrif þessarar þingsályktunartillögu hér snemma í haust því að aldrei birtist sjálf þingsályktunartillagan. Hún kom aldrei fram. Þetta er enn eitt dæmið um mál sem fá ekki viðhlítandi umræðu í þingsal. Hæstv. forsætisráðherra sagði þá að hann ætlaði að vinna að því að fá þessa þingsályktunartillögu fram. Hún hefur ekki sést síðan, en hvað gerist hér? Nú dúkkar hún upp í breytingartillögum við fjárlagafrumvarp. Guðjón Samúelsson sjálfur er mættur en þingsályktunartillagan hefur aldrei verið lögð fram. Við heyrðum einhverjar sögusagnir um að hún væri föst í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Hæstv. forsætisráðherra sagðist ekki vera í þeim flokki þannig að hann gæti ekki sagt til um það þannig að ekki kom meira fram um það, en þetta er enn eitt dæmið um það hvernig verið er að nýta fjárlög til að taka pólitískar ákvarðanir sem menn forðast umræðu um hér í salnum. Finnst frú forseta viðunandi vinnubrögð að byrja á því að kynna þingsályktunartillögu með forsíðufrétt 1. apríl, taka forræði á málum húsbygginga Alþingis sem heyra undir forsætisnefnd frá téðri forsætisnefnd, láta sem þingsályktunartillagan sé horfin og henni aldrei dreift í þingi — og svo birtist hluti hennar í fjárlagaumræðu í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar?

Ég spyr: Hvar er þá afgangurinn af tillögunni? Hvar er Hús íslenskra fræða? Ég sé ekki að Happdrætti Háskóla Íslands fái neina heimild til að byrja að nýta sína fjármuni í að byggja það hús sem þó er búið að grafa grunninn fyrir. Og finnst mönnum mikilvægara að fara í þessa byggingu en að byggja yfir handritin, sem eru á heimsminjaskrá UNESCO, byggingu sem er fullhönnuð? Er það bara af því að sú hönnun var kláruð í tíð síðustu ríkisstjórnar? Ég ætla að leyfa mér að upplýsa frú forseta um að það var byrjað á þeim áformum í tíð þarsíðustu ríkisstjórnar þannig að það þyrfti ekki að vera neitt flókið fyrir Sjálfstæðisflokkinn að halda áfram með það því að það var menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sá ágæti hv. fyrrverandi þingmaður, sem fór af stað með það mál og hóf það ferli. Ég hefði haldið að þingmenn flokksins mættu vera fullsæmdir af því að ljúka því máli hér. En það sést ekki. Guðjón er hins vegar mættur í þessar breytingartillögur. Ég spyr: Af hverju tökum við ekki þessa umræðu með eðlilegum hætti, frú forseti?

Ég fagna breytingartillögu meiri hlutans um 80 millj. kr. framlag í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands. Ég hef átt hér fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra frá 7. október og núna er 14. desember. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki séð sér fært að svara fyrirspurn minni sem er um hvað líði þeirri nefnd sem átti að setja á laggirnar til að gera áætlun um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands. Alþingi Íslendinga samþykkti einum rómi stofnun þessa sjóðs í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands og samþykkti að sett yrði á laggirnar nefnd og hennar markmið væri að vinna að eflingu háskólastigsins og eflingu framlaga til þess þannig að Ísland kæmist í fyrsta lagi á par við önnur OECD-ríki og í öðru lagi á par við önnur Norðurlönd síðar. Hér kemur fram að settur hafi verið á laggirnar starfshópur, sem er rétt, og að tillögur hópsins hafi náð til 2014 en ég hef ekki enn heyrt um það, af því að fyrirspurn minni hefur ekki verið svarað hér, hvort nýr hópur hafi verið settur, hvort 80 milljónirnar sem hér eru lagðar til og ég styð séu hluti af einhverri áætlun til lengri tíma og hvernig menn sjái þá fyrir sér framlögin til 2020. Það væri mjög áhugavert að fá að vita það, frú forseti.

Ég velti líka fyrir mér í þessum smærri málum liðnum Rannsóknir háskóla í þágu landbúnaðar, 58 millj. kr. framlagi undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Það er gömul saga, atvinnuvegaráðuneytið hefur styrkt Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri um rannsóknir en á sama tíma er verið að ræða um að sameina Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, Hólaskóla og Háskólann á Bifröst í einn háskóla. Sú ákvörðun lá ekki fyrir síðast þegar ég spurði hæstv. menntamálaráðherra út í þau mál. Þar hefur verið starfandi starfshópur undir forustu tveggja hv. þingmanna. Ég spurði hæstv. ráðherra um þetta fyrir skemmstu og þá var ekki komin skýrsla frá starfshópnum en hér er eigi að síður lagt til framlag til rannsókna, vafalaust gott mál, vafalaust eitthvað sem við getum öll stutt, en viljum við ekki hafa einhverja heildarmynd? Mundum við ekki vilja vita nákvæmlega hver ætlunin væri í sameiningu þessara þriggja skóla? Væri ekki ágætt að hafa eitthvert plan, frú forseti?

Það á raunar líka við um þau framlög sem hér eru lögð til í rannsóknir á sviði ferðamála. Í tillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir því að settar verði 150 millj. kr. í rannsóknir á sviði ferðamála. Ég er sammála því. Rannsóknir á sviði ferðamála eru mjög mikilvægar og hafa verið vanræktar. Gert er ráð fyrir að gerðir verði samningar um ráðstöfun þessara fjármuna til samræmis við forgangsröðun Stjórnstöðvar ferðamála.

Frú forseti. Við eigum ágætisrannsóknasjóðakerfi í landinu. Vísinda- og tækniráð hefur árum saman talað fyrir einföldun þess kerfis, að við séum með færri sjóði en stærri, að við skiptum þeim eftir málaflokkum og að þar sé úthlutað fjármunum út frá samkeppnissjónarmiðum, þ.e. að sótt sé um peninga í þessa sjóði og fjármununum úthlutað samkvæmt ákveðnum viðmiðum, kríteríum, það séu tryggð ákveðin gæði í því, tryggðar hlutlægar dómnefndir og þeim skipt út með reglulegu millibili. Það fyrirkomulag hefur gefist vel, t.d. þegar við horfum til Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Rannsóknasjóðs Íslands. Þetta fyrirkomulag hefði ég viljað sjá komast á þegar kemur að atvinnuvegarannsóknum, að við værum á sömu vegferð, að einfalda kerfið, fækka sjóðum, færa fjárveitingar til rannsókna undir samræmt kerfi þar sem við tryggjum gæði og samkeppnissjónarmið. En hér á að gera samning til samræmis við forgangsröðun Stjórnstöðvar ferðamála. Það er ekki minnst á hvert hlutverk Rannsóknamiðstöðvar ferðamála á að vera eða þeirra háskóla sem annast rannsóknir á sviði ferðamála. Ekki virðist gert ráð fyrir því að það eigi að úthluta þessu samkvæmt samkeppnissjónarmiðum, heldur bara talað um að gerðir séu samningar. Finnst okkur það góð nýting á rannsóknafé? Teljum við þetta vera í takt við samþykkta stefnumótun Vísinda- og tækniráðs um það hvernig við byggjum upp sjóðakerfið okkar? Ég leyfi mér að draga það í efa.

Enn og aftur erum við hér með pólitískar ákvarðanir teknar í gegnum fjárlög í miðri fjárlagaumræðunni án þess að viðhlítandi umræða fari fram. Við erum með alls konar apparöt sem eru að vinna að stefnumótun úti í samfélaginu og í staðinn fyrir að Alþingi Íslendinga taki við þeirra vinnu og vinni áfram út frá henni, eins og í tilfelli Vísinda- og tækniráðs, ákveður Alþingi að slumpa 150 milljónum í rannsóknir á sviði ferðamála í gegnum nýstofnaða opinbera nefnd, Stjórnstöð ferðamála.

Þetta er því miður ekki eina dæmið um slíkt. Eitt af því sem síðasta ríkisstjórn gerði og hefur verið bitist um síðan var að koma á laggirnar svokölluðum sóknaráætlunum landshluta. Hugmyndafræðin á bak við þær var að landshlutarnir gerðu sér sínar eigin áætlanir um sóknartækifæri, getum við sagt, þ.e. hvað þeir vildu leggja áherslu á í sinni uppbyggingu í atvinnumálum, menntamálum og öðrum málum, og hverjir væru veikleikar þeirra. Það fór fram ákveðin greining í hverjum landshluta. Til voru kallaðir mjög ólíkir hagsmunaaðilar, almenningur, forsvarsmenn stofnana, fyrirtækja, sveitarstjórnarmenn úr ólíkum sveitarfélögum og þetta var sett í gang. Það voru haldnir þjóðfundir í hverjum landshluta þar sem tækifæri gáfust til opinnar umræðu. Ferlinu var ætlað að vera lýðræðislegt. Það fyrsta sem núverandi ríkisstjórn gerði var að reyna að skera þetta niður í nánast ekki neitt. Hún uppskar nokkur mótmæli, meira að segja frá samflokksmönnum sínum í ýmsum sveitarstjórnum úti um land, þannig að ekki var farið alla leið með að drepa þetta ágæta fyrirbæri heldur haldið áfram með það að hafa sóknaráætlanir í ýmsum landshlutum. Eigi að síður finnst mér ákveðinn vandræðagangur hafa loðað við sem sést til að mynda í því að sérstök norðvesturnefnd hefur verið starfandi til hliðar við sóknaráætlanakerfið sem leggur til ýmsar fjárveitingar sem rata hér inn við 2. umr. fjárlaga. Þar má nefna ýmis góð og verðug verkefni sem ég er alveg viss um að hefðu hlotið brautargengi innan sóknaráætlana landshluta ef því vinnulagi hefði verið leyft að halda áfram og blómstra. Í staðinn er þetta gert ólýðræðislega þar sem tilteknir aðilar eru kallaðir til og látnir gera tillögur um að verja fjármunum skattborgaranna í verkefni á tilteknu svæði. Það er ekki leitað til almennings og ekki til allra hagsmunaaðila á svæðinu. Það er ekki farið í ferli sem við eigum. Af hverju ekki, frú forseti? Af hverju viljum við ekki nýta þau ferli sem er búið að byggja upp og fólk hefur komið að, sveitarstjórnarmenn úr öllum flokkum, leyfi ég mér að fullyrða, af ólíkum svæðum sem komu að því verkferli og fannst það skipta máli? Þar var verið að ræða um byggðastefnu á forsendum heimamanna, einmitt ekki endilega ákveðin forgangsröðun í fjárlögum á Alþingi, hér fyrir sunnan, heldur fengu áætlanirnar ákveðinn pott þar sem hægt var að forgangsraða. Það sem kom mér mjög skemmtilega á óvart þegar skoðað var að hverju landshlutarnir komust var áherslan sem þar var lögð á frumkvæði einstaklingsins og að útbúa innviðina sú að einstaklingarnir hefðu sem best tækifæri til að skapa sér sín eigin atvinnutækifæri.

Ég fæ ekki séð að sú nýsköpunarhugsun sé endilega í gangi hér. Hér eru til dæmis lagðar 30 milljónir til uppbyggingar iðnaðarsvæðis á Hafursstöðum sem eru auðvitað hugmyndir sem hafa verið uppi þar um enn eitt álverið. Það kemur kannski á óvart inn í þá umræðu sem við erum í núna um breytta atvinnuuppbyggingu og að horfa meira til frumkvæðis einstaklinganna. Ég skil eiginlega ekki af hverju horfið er frá sóknaráætluninni, farið út í þessa gamaldags hugsun um norðvesturnefnd eins og var þegar ég byrjaði á þingi, þá voru einmitt nefndir fyrir einstaka landshluta sem höfðu þetta verklag. Ég varð ekki vör við neina sérstaka ánægju með það verklag, frú forseti, ef ég á að vera alveg hreinskilin þannig að mér finnst slæmt að við séum horfin til baka til þessa verklags. Það er ekki vegna þess að mörg þessara verkefna séu ekki góð, ég þekki mörg fín verkefni sem þarna eru undir og ég er nokkuð viss um að þau hefðu hlotið brautargengi innan sóknaráætlanaferlisins.

Ég ætla að leyfa mér að segja í lok ræðu minnar að mig undrar ekki að þessi umræða hafi dregist á langinn. Sú pólitíska umræða sem við hefðum átt að eiga hér í september, október og nóvember, hvort sem er um samgönguáætlun, þróunarsamvinnu, stefnumótun í málefnum framhaldsskólanna eða um sóknaráætlun, eins og ég sagði áðan, er öll komin inn í umræðu um fjárlög. Meira að segja sú pólitíska umræða sem við hefðum átt að eiga um hina frægu þingsályktunartillögu sem hvarf, um fögnuð vegna fullveldisins, hún er meira að segja komin inn í formi framlags til að byggja hér hús í anda Guðjóns Samúelssonar þó að aðrir hlutar tillögunnar hafi týnst. Ég lýsi eftir Húsi íslenskra fræða úr því að þingsályktunartillagan hefur ratað hér inn og spyr hvar það liggur í ljósi þess að sú hola er grafin og að við þurfum að fara að ákveða hvort við ætlum að fylla upp í hana. Það liggur alveg fyrir að það hús verður ekki tilbúið 2018 ef við hefjum ekki framkvæmdir við það 2016.

Á ég þá að skilja það sem svo að ríkisstjórnin sé búin að ákveða að það hús verði ekki byggt, að þegar þingsályktunartillagan hvarf einhvers staðar í ferlinu hafi hún horfið út af Húsi íslenskra fræða og að menn séu á móti því að það verði byggt? Ég velti því fyrir mér í ljósi þess að það er engin breytingartillaga um það en hér er breytingartillaga um nýtt þinghús í anda Guðjóns Samúelssonar.

Frú forseti. Það er ekki nema von að við þingmenn stjórnarandstöðunnar spyrjum ýmissa spurninga í þessari umræðu og að hún taki sinn tíma. Þarna eru pólitískar spurningar sem ég tek undir með þeim sem finnst þessi umræða löng. Þessum pólitísku spurningum ætti að vera svarað á öðrum tíma í Alþingi. Við ættum ekki að þurfa að spyrja allra þessara spurninga hér og nú. Við ættum að hafa samþykkta samgönguáætlun. Við ættum að hafa hér samþykkta áætlun um þróunarsamvinnu. Við ættum að vera búin að ræða stefnumótun í háskólamálum. Við ættum að vera komin með upplýsingar um það hvað stendur til með háskólana í Norðvesturkjördæmi.

Í ljósi þess að þessu hefur ekki verið sinnt af hálfu hæstvirtra ráðherra liggur fyrir að þessa umræðu þurfum við að taka núna og mér finnst það ekki góð vinnubrögð, frú forseti.