145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er engin einföld lausn á þessu. Það er alltaf mikilvægt að tryggja gagnsæi við úthlutun opinberra fjármuna. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þegar safnliðirnir voru færðir inn í ráðuneytin þá upplifðu margir að gagnsæið væri orðið minna hvað það varðar hvernig þessum fjármunum væri varið þó að að einhverju leyti fengju sömu verkefnin styrki frá ráðuneytum og áður höfðu fengið styrki frá Alþingi.

Þetta var hins vegar orðið svo, þegar ég hóf störf á Alþingi, að hátt í milljarði var úthlutað af fjárlaganefnd í gegnum safnliði. Mér fannst heldur enginn bragur á því að verið væri að útdeila hundrað þúsund köllum af hálfu fjárlaganefndar.

Ég tel mjög mikilvægt, til þess að tryggja sem mest gagnsæi og jafnræði, að fengnar séu til verksins einhvers konar faglegar úthlutunarnefndir, til dæmis á sviði menningarmála, sem síðan hafi ákveðinn skipunartíma þannig að þær verði ekki eilífar í embætti til að tryggja ákveðna nýliðun og breytt sjónarmið. Það eru ekki bara stjórnmálamenn sem hafa sterkar skoðanir á málum, það eru ýmsir aðrir sem geta haft sterkar skoðanir og því held ég að ákveðin rótering skipti máli í þessu.