145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég segi það sem þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður að ég held að Grafarvogsnefnd hljóti að vera næsta málið í þessum nefndum öllum. En svona án gríns þá held ég að við ættum að velta því fyrir okkur hvernig við getum aukið lýðræðislegt vinnulag við fjárlögin. Það ættum við að geta sameinast um þvert á flokka og stjórnmálastefnur. Þátttaka í fjárhagsáætlunargerð er það sem mjög mörg sveitarfélög hafa verið að reyna víða í Evrópu og í Bandaríkjunum, þ.e. að fá fólkið sjálft, sem verður fyrir áhrifum af því sem verið er að ákveða, til þess að taka aukinn þátt í þessu.

Við búum hér á þessu 300.000 manna landi, 320.000 manna ríki. Við höfum frábært tækifæri til þess að ráðast í þátttöku í fjárhagsáætlunargerð. Fjárlaganefnd Alþingis gæti beinlínis farið í að reyna að búa til ferla þannig að almenningur komi meira að þessu ferli og hafi meira um það að segja hvernig fjármunum er varið. Fólki finnst slíkt ferli flókið en þar sem það hefur verið reynt hefur það oft heppnast gríðarlega vel. Ég held að óháð öllu vinstri og hægri þá ættum við öll að geta sameinast um að við mundum vilja gera fjárlagagerðina okkar lýðræðislegri þannig að almenningur í landinu ætti ákveðna hlutdeild í þeim fjárlögum sem svo eru samþykkt hér á Alþingi.