145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að kjarninn í þessu máli sé sá, eins og ég fór yfir í ræðu minni, að við hefðum getað tekið pólitíska umræðu hér í allt haust um alls konar mál sem við erum að ræða núna ef hæstv. ráðherrar hefðu staðið sig í að leggja fram mál, ef samgönguáætlun hefði verið lögð fram, þróunarsamvinnuáætlun og hvað þetta allt heitir, öll dæmin sem ég ræddi hér um málin sem ekki komu fram hjá hæstv. ráðherrum, en ákvarðanir eru teknar um í gegnum fjárlög. Auðvitað eiga stjórnarliðar ekki að kvarta yfir stjórnarandstöðunni. Stjórnarliðar eiga ekki að kvarta undan þingmönnum stjórnarandstöðunnar yfir því að umræðan teygist. Hins vegar ættu stjórnarliðar að kvarta við hæstv. ráðherra fyrir að eiga ekki nauðsynlegt pólitískt samtal um sín stefnumótandi mál í þinginu. Þar liggur vandinn. Þetta snýst um það hvernig Alþingi starfar.

Ég tel að við sem hér erum, almennir þingmenn, ég sé nú enga hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) ættum að minnsta kosti að geta sameinast um að breyta þessari umræðu og ekki vera að benda hvert á annað. Það eru ráðherrarnir sem koma ekki fram með málin. Það eru ráðherrarnir sem bera (Forseti hringir.) ábyrgð á því að hér er verið að taka pólitískar (Forseti hringir.) ákvarðanir í gegnum fjárlög sem við ættum að vera búin að ræða á allt öðrum vettvangi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)