145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Ég verð að viðurkenna að þar sem hv. þingmaður er fyrrverandi ráðherra í síðustu ríkisstjórn þá finnst mér hún skauta svolítið létt yfir ýmsa hluti. Ég held að ágætt sé að hv. þingmaður, sem var menntamálaráðherra þegar þetta blessaða dreifikerfi var keypt, mér sýnist illu heilli, útskýri aðeins af hverju farið var í þá vegferð.

Á sama hátt er það ekki sannfærandi þegar maður skoðar hvar starfsmönnum var fækkað á síðasta kjörtímabili. Fjölgað var í utanríkismálunum en bæði í tölum og hlutfalli var mest fækkað í heilbrigðismálum, og ég skil ekki alveg af hverju, af því að þið eruð orðin svona allt í einu gríðarlega áhugasöm um heilbrigðismál, með fullri virðingu. Á sama hátt komið þið hérna með tillögur sem eru ófjármagnaðar. Skatteftirlitstölurnar eru auðvitað út í bláinn. Það að setja hérna að arðgreiðslur frá fjármálastofnunum hækki um 8 milljarða, þið eruð ekki að hækka neinar tekjur. Það er bara farið eftir Bankasýslunni (Forseti hringir.) eins og þið hafið farið fram á. Það sama á um hina þættina líka.