145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var að koma nýleg greining sem sýnir að mati skattyfirvalda að skattundanskot nemi um það bil 80 milljörðum kr. Þetta hefur komið fram hjá ríkisskattstjóra, og ég segi 4 milljarðar, það er mundi ég segja áætlun um það sem verður hægt að endurheimta miðað við þau (Gripið fram í.) skattundanskot sem eru áætluð af hálfu ríkisskattstjóra. Til að hægt sé að bæta skatteftirlit þarf auðvitað að setja fjármuni í það. Við höfum séð slíkar fjárfestingar skila sér. Það þarf ekki að vera neinn geimvísindamaður til þess, það sjáum við til dæmis frá nágrannalöndum okkar. Ég hef talað fyrir því að kaupa líka gögn í skattaskjólum, beita sér fyrir upplýsingaskiptasamningum og bæta hér almenn skattskil. Ég trúi nú ekki öðru en hv. þingmaður sé sammála mér um (Gripið fram í.) að það skipti máli.

Hvað varðar arðgreiðslurnar þá hafa þær verið metnar hér langt undir því sem þær hafa svo reynst í fjárlögum, þannig að ég held að við séum í raun og veru að gera raunhæfari áætlanir en hafa verið settar í fjárlögum um arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum. (Forseti hringir.) Ég átta mig ekki á því — hv. þingmaður yfirgefur nú bara salinn, en ég hefði haldið að við ættum (Forseti hringir.) að geta sameinast um það að reyna að koma í veg fyrir það mein sem skattsvik eru og gera það með því að bæta skatteftirlit, frú forseti.