145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög sérstakt þegar ég sé hv. stjórnarandstæðinga fara í andsvör við aðra hv. stjórnarandstæðinga. Hugmyndin er sú að hafa hérna orðaskipti. Það er oft kvartað undan því að við tökum ekki þátt í umræðunni. Við tökum þátt í umræðunni og förum í andsvör í öllum ræðum en höfum náttúrulega engan tíma þegar stjórnarandstæðingar fara alltaf sjálfir í andsvör hver við annan. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Mér fannst margt mjög gott í ræðu hv. þingmanns sem ég hefði viljað eiga orðaskipti við hana um. Mér fannst hún hins vegar, af því að ég veit að hún er fylgjandi frumvarpinu um opinber fjármál, ekki vera alveg í takt við inntakið í því, sérstaklega þegar hún talaði um Landspítalann. Það er alveg séríslenskt og hefur verið, alla vega ef við berum okkur saman við lönd sem við viljum bera okkur saman við, að menn fari fram úr fjárlögum. Heilbrigðiskerfið er flóknara en svo að það snúi einungis að spítalanum, jafn mikilvægur og hann er. Ég skil ekki alveg af hverju hún talar eins og það sé fullkomlega sjálfsagt (Forseti hringir.) að einhver stofnun, sama hver hún er, fari fram úr fjárlögum.