145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri mér grein fyrir að þetta er stuttur tími. Ég er tilbúin að taka umræðu við hv. þingmann hvenær sem er á göngum Alþingis um hin ýmsu mál. Varðandi það sem ég var að tala um í sambandi við Landspítalann þá var ég einmitt að gagnrýna ráðherra fyrir að fylgja því ekki eftir að Landspítalinn héldi sig innan fjárheimilda. Ég upplifi það þannig núna þriðja árið að ráðherra setur pening í Landspítalann sem hann veit raunverulega að er of lítill. Ég hef ekki séð hann grípa til neinna aðgerða vegna hallareksturs Landspítalans. Ég held að spítalar og Landspítalinn sérstaklega séu aðeins flóknari stofnanir en margar aðrar.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni að auðvitað eiga stofnanir að halda sig innan fjárheimilda. Ef þær gera það ekki verður ráðherrann að bregðast við og segja einfaldlega: Þið verðið að hætta þessu. Nú hættið þið þessum aðgerðum. Þið takið ekki á móti fólki sem er eldra en þetta. Þið sendið gamla fólkið bara út í rigninguna. Það verður að fara í einhverjar aðgerðir. Annaðhvort setja menn raunhæft fjármagn í stofnunina, hlýtur að vera, eða skera niður til þess að fjármagnið verði raunhæft. (Forseti hringir.) Hver er staðan með Landspítalann? Hann fer ítrekað fram úr fjárheimildum eftir að hafa reyndar náð að vinna upp rekstrarhalla, sem var ágætt.