145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:00]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég held að það sé best að sem mest fari til landshlutasamtakanna og sé útdeilt þar; og menningarsamninganna líka. Hins vegar er það kannski svolítið flókið með menningarsamningana, þeir eru úti á landi meðan við erum með mjög mikið af menningarstofnunum hér í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu sem eru á fjárlögum. Það eru til dæmis fjölmörg söfn á fjárlögum sem fá örugga peninga á hverju ári. En þá getur maður velt því fyrir sér hvort réttlætanlegt sé að söfn úti á landi þurfi að sækja í menningarsamninga sveitarfélaga. Þá fer peningurinn í það og í þessi söfn á meðan söfn á höfuðborgarsvæðinu fá bara sín framlög af fjárlögum. Ég mundi helst vilja, þegar við tölum um söfn, að fyrir lægi allsherjargreining í menntamálaráðuneytinu sem snýr að söfnum og setrum þannig að enginn sé skilinn út undan. Og auðvitað þarf að gera kröfur til allra safna og (Forseti hringir.) með því að hafa þetta í ráðuneytunum á að vera faglegt eftirlit með því að peningunum sé vel varið.