145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er alveg sammála því að það þurfi að endurskoða þetta. Það hefur komið gagnrýni á að mörg lítil en samt góð og mikilvæg verkefni fyrir sitt svæði hafi fallið á milli skips og bryggju. Við þurfum að ná til þessara verkefna líka, að þau falli ekki alveg upp fyrir við þessar breytingar, þó að við viljum hafa þetta sem faglegast og að vandað sé til verka og menn fari eftir gegnsæjum ferlum.

Mig langar aðeins að koma inn á barnabætur og vaxtabætur. Í þessu frumvarpi fylgja þær ekki verðlagsþróun. Við þekkjum í fjáraukanum að þá gengu 600 milljónir aftur í ríkissjóð af barnabótum vegna þess að viðmiðunarmörkin voru ekki hækkuð, og 200 milljónir í vaxtabótum. Nú var talað um að við hækkun á matarskatti ætti að koma til mótvægisaðgerða, upp á um 1,4 milljarða, en þessir hópar, barnafjölskyldur, þeir sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið, eru alltaf skildir eftir.