145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að auðvitað getur skipt máli að hafa tengingar inn í fjárlaganefnd. Það þarf ekki að vera spilling, eins og það er kallað. En ég man sjálf eftir að hafa einhvern tíma verið að vesenast með eitthvert fjármagn og þá var einhver sem sagði við mig: Þekkirðu ekki einhvern í fjárlaganefnd? Af hverju hringirðu ekki í einhvern í fjárlaganefnd? Auðvitað viljum við ekki hafa þetta þannig. Ég veit nú ekki þegar saman er talið hvort þetta á meira við það sem fer út á land. Jú, kannski. En þetta kemur óorði á okkur og vekur grun um kjördæmapot vegna þess að við erum með stóru liðina sem fara kannski á höfuðborgarsvæðið, í menningarmálin til dæmis. Þetta gerir okkur erfitt fyrir sem erum að reyna að berjast fyrir sanngjörnum fjárframlögum út á land. Ég upplifi það ekki þannig að landsbyggðin sé ofalin af þeim fjárframlögum sem þangað fara, þannig að þetta hjálpar ekki til. Það finnst mér miður.