145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:09]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tala ekkert endilega fyrir einhverjum niðurskurði á RÚV. Ég er bara að segja að það megi skilgreina hlutverkið betur. Ef menn ætla núna að fara að lækka fjárframlagið til RÚV finnst mér það vera stjórnvalda eða hæstv. menntamálaráðherra að segja hvað eigi þá undan að láta. Hver á annars að taka þá ákvörðun? Ég segi hins vegar líka að það sé ekkert hoggið í stein að RÚV eigi að vera eins og það hefur alltaf verið. Það er umræða sem mér finnst að við eigum að taka hér í þingsal. Við eigum að ræða um RÚV og hvernig viljum við hafa það. Ég vil hafa öflugt ríkisútvarp en ég er ekkert að segja að það þurfi endilega að vera tíufréttir og hvað veit ég. Það getur vel verið að það megi spara. Ég hef ekkert vit á útvarps- eða sjónvarpsrekstri. Það er bara umræða sem við tökum hér. Mér finnst svolítið glannalegt að ætla að skera niður en vera ekki búin að ákveða hvers konar stofnun við viljum hafa. Þá fær maður á tilfinninguna að það eigi í rauninni að byrja hægt og bítandi að skemma RÚV vegna þess að stofnunin sé andstæð einhverjum (Forseti hringir.) hagsmunum hérna.