145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það hefur komið fram við umræðuna að fjárlaganefnd hefur ekki getað skilað frumvarpinu til 2. umr. eins og best væri á kosið. Það er svo sem ekki fjárlaganefnd einni um að kenna. Það hefur komið í ljós að það gleymist meira að segja í fjármálaráðuneytinu að gera ráð fyrir launahækkunum kennara. Fjárlaganefnd hefði kannski getað komist að því að það gleymdist.

Síðan var gerður mjög ánægjulegur samningur fyrir helgi um meiri peninga til sveitarfélaganna vegna málefna fatlaðra. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að það hljóti að koma fjárlagafrumvarpinu á næsta ári eitthvað við. Þarf ekki að vísa málinu (Forseti hringir.) núna, eins og stungið hefur verið upp á, til nefndarinnar aftur þannig að við getum (Forseti hringir.) nokkurn veginn verið með fullbúið frumvarp þegar við tökum lokaumræðuna, lokadaginn (Forseti hringir.) í 2. umr. sem verður væntanlega á morgun eða hvað?