145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:19]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef heyrt ýmsa þingmenn stjórnarandstöðunnar koma hingað upp og lýsa því yfir að ræður sem fluttar eru eftir miðnætti verði endurfluttar daginn eftir. Það er allt gott um það að segja. Ég flutti mína fyrstu og einu ræðu um fjárlögin eftir miðnætti. (Gripið fram í.) Jú, það gerði ég vissulega. Ég hef ekki séð ástæðu til að endurflytja hana daginn eftir þó að mér hafi þótt þetta ágætisræða. Það er kannski (BjG: Flytja hana aftur.) minni hógværð að þakka að ég hef ekki flutt hana aftur.

Nú slógum við Íslandsmet í ræðuhöldum hér á sjötta tímanum í dag. Ég óska þingmönnum til hamingju með þann áfanga. (Gripið fram í: Takk.) Við ræddum það frammi áðan hvort heimsmetið væri ekki í nánd og fróðustu menn þingsins töldu að mjög stutt væri í það. Ég hvet því (Gripið fram í.) hæstv. forseta til að halda þessum fundi áfram þannig að tryggt sé að við náum heimsmetinu alla vegana kannski í nótt eða snemma í fyrramálið.