145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er náttúrlega ljóst að yfirlýsing forsætisráðherrans hérna í dag var alveg met. Það virðist vera eins og hann skilji það ekki og komi því ekki inn í kollinn á sér að við erum að tala fyrir kjörum aldraðra og öryrkja. Við viljum að þeir fái sömu kjarabætur og aðrir landsmenn hafa fengið. Við viljum að þeim séu tryggðar sömu kjarabætur á næsta ári og aðrir landsmenn hafa samið um. Við viljum að Landspítalinn fái þá peninga sem hann þarf til að hægt sé að reka hann almennilega og hægt sé að gera húsnæðið þannig að það sé fólki sæmandi. Við viljum að Ríkisútvarpið fái peninga og stöndum með hæstv. menntamálaráðherra í baráttu hans fyrir því að fá þá peninga sem Ríkisútvarpið þarf í minnsta lagi til að geta (Forseti hringir.) rekið það hlutverk sem því er skapað samkvæmt lögum.

Þetta er það sem við viljum og ég væri þakklát ef forseti kæmi þessu til forsætisráðherra (Forseti hringir.) bara svo hann skilji um hvað við erum að tala hérna.