145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:39]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um að ég hef engar áhyggjur af lengd umræðunnar. Mér er líka sama þótt slegin séu hér Íslandsmet, heimsmet, Evrópumet, eða hvað þetta heitir allt. Ég skal meira að segja hengja medalíu fyrir metið á stjórnarandstöðuna.

En það sem undrar mig er af hverju ekki má nýta tímann til að ræða um fjárlögin. Sú krafa að það þurfi alltaf að gera það í dagsbirtu er mér algerlega óskiljanleg. Það er fullt af fólki sem vinnur í myrkri og við getum alveg unnið í myrki eins og allir aðrir. Við skulum því bara halda umræðunni áfram. Ég geri engar athugasemdir um lengdina, nýtum bara tímann og ræðum þetta í botn.