145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé eðlilegt að halda umræðunni áfram í dagsbirtu. Mér sýnast stjórnarliðar ekki ríða feitum hesti frá henni og er hálfhissa á ummælum hv. þm. Karls Garðarssonar hér áðan. Það er full ástæða til að fjárlaganefnd fari aftur yfir málin.

Við heyrðum hæstv. fjármálaráðherra endasendast í umræðunni í dag og fara með alveg furðulegt fleipur um forsendur þeirrar ákvörðunar að láta öryrkja og aldraða sitja hjá við kjarabætur. Ég held því að það væri öllum fyrir bestu að vera ekki að lengja þessa umræðu í kvöld heldur halda áfram á morgun og vinna þetta mál. Það er auðvitað full ástæða til þess satt að segja eins og umræða hefur þróast. Í ljósi þess að málið er mjög vanbúið af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar og mikill misskilningur er hjá hæstv. forsætisráðherra um forsendur málsins er full ástæða til að taka það aftur inn í nefnd.