145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil einfaldlega leiðrétta hér staðreyndavillu af hálfu virðulegs forseta. Það hafa ekki verið greidd atkvæði í dag um næturfund. Greidd hafa verið atkvæði um heimild til kvöldfundar og í því felst ekki samþykki við næturfundi.

Það er sjálfstæð ákvörðun forseta hversu lengi haldið er áfram inn í nóttina. Þegar svo háttar sem nú er að það eru engin sérstök efnisleg rök fyrir því og hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans eru orðnir meira og minna ráðvilltir af staðreyndaruglingi í þessari umræðu allri er sjálfsagt að gera þeim þann greiða að vera ekki að æra óstöðugan og halda áfram inn í nóttina heldur láta hér nótt sem nemur og ljúka þessari umræðu hér á miðnætti. Það er því hvatning mín til virðulegs forseta að hann hugleiði það af alkunnri visku sinni.