145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir síðustu alþingiskosningar var mikil umræða í aðdraganda kosninganna um erlenda vogunarsjóði sem kallaðir eru stundum hrægammasjóðir og eðlilega lögð mikil áhersla á það af öllum flokkum að uppgjör við þá í tengslum við fall bankanna yrði hagstætt íslensku þjóðinni. Einn flokkur gekk þó kannski sýnu lengst í því að vilja taka af mikilli hörku á þessum erlendu kröfuhöfum eða hrægömmum og sá flokkur fékk fyrir vikið nokkurt umboð til þess verks. En hvar stöndum við núna þegar við fjöllum um fjárlög fyrir árið 2016? Við stöndum þar að þessir svokölluðu hrægammasjóðir eru hamingjusömustu hrægammasjóðir í heimi. Ekki hefur verið tekið af þeim það sem Ísland þurfti út úr búunum heldur hefur verið samið við þá og þannig haldið á samningunum að bæði hefur Ísland ekki nægu úr að spila eftir samningana og eins er það mat viðsemjendanna, hina erlendu kröfuhafa, að samningarnir séu þeim svo geysilega hagstæðir að þeir flykkjast til Íslands og mæta á kröfuhafafundi með þeirri fundarsókn sem sjaldan hefur sést á slíkum fundum, þ.e. yfir 90% mætingu fyrir þúsundir og aftur þúsundir kröfuhafa um heim allan. Þegar þeir eru spurðir hvort þeir vilji samþykkja samninginn sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson bauð þeim segja rúmlega 99% já. Ég held að meira að segja í Rússlandi sjái menn ekki aðrar eins samþykkisprósentur lengur.

Hvers vegna er bert að þetta uppgjör við slitabúin er ekki nóg fyrir Ísland? Það væri auðvitað út af fyrir sig að kröfuhafarnir væru ánægðir ef við hefðum fengið það sem við þurftum en augljóslega höfum við ekki fengið það sem við þurftum því að hér kemur hver stjórnarþingmaðurinn upp á fætur öðrum og lýsir því yfir að rétt sé og skylt að bæta kjör aldraðra, en það séu bara ekki til peningar til að ganga nægilega langt, og að rétt sé og skylt að fjármagna með þeim hætti Landspítalann að hann geti sinnt þeim verkefnum sem hann á að sinna og forusta spítalans hefur skilmerkilega gert grein fyrir að hann þurfi, en stjórnarflokkarnir segjast ekki eiga peningana til að sinna þeim þörfum. Það sem kemur í veg fyrir að þeir séu hið góða fólk, eins og til dæmis hv. þm. Brynjar Níelsson sem mikinn hefur farið sem fórnarlamb undanfarið í umræðunni, er skortur á fjármunum. Hvernig má það vera að stjórnarmeirihlutinn hafi náð viðunandi samningum við erlenda kröfuhafa en eigi að loknum samningunum hvorki peninga til að hækka kaup aldraðra og öryrkja frá sama tíma og okkar hinna né peninga tel að reka Landspítalann, að við nú ekki förum að tala um Ríkisútvarpið eða aðra slíka þætti?

Þetta gefur auðvitað fjárlaganefnd fullt tilefni til að fara mjög vandlega yfir þessa stöðu og einkanlega auðvitað ef hér eiga að koma inn við 3. umr. umtalsverðar breytingar á fjárlagafrumvarpinu tengdar þessum stöðugleikasamningum. Það er nýlunda ef svo viðamiklar breytingar eiga að koma inn milli 2. og 3. umr. en yfir þetta málefni þarf að fara. Var ekki búið að fara kirfilega yfir það að uppgjörið við kröfuhafana væri þannig að hér væri úr nægu að spila í íslensku samfélagi eftir samningana? Er það þannig að bara nokkrum mánuðum eftir að samið var við hina erlendu kröfuhafa sé ríkissjóður kominn í vandræði, þá standi hér fjármálaráðherra eins og hann stóð í morgun og sagði að afgangurinn af ríkissjóði í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi væri ekki jafn mikill og gert var ráð fyrir í langtímaáætlun sem sama ríkisstjórn lagði fram í sumar? Hvernig hangir þetta saman?

Á vordögum var samþykkt í þinginu mikilvægt frumvarp til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð sem fékk stuðning þingmanna úr öllum flokkum. Menn voru sammála um að leggja á stöðugleikaskatt, voru sammála um lögmæti þeirrar aðgerðar og allir á einu máli um að fjárhæð þess skatts væri fullnægjandi til að vinna úr þeim úrlausnarefnum sem fram undan væru. Síðan dúkkar ríkisstjórnin upp á haustinu og segir að þetta sé allt í lagi, það þurfi ekkert að taka þennan skatt af hinum erlendu kröfuhöfum af því að ríkisstjórnin sé nefnilega í færum til að gefa þeim afslátt, semja við þá um sérstök afsláttarkjör og að þeir fari út úr gjaldeyrishöftum með sína peninga áður en nokkrum Íslendingi verði hleypt út úr gjaldeyrishöftum, þeir skilji okkur eftir hér innan hafta en fari úr landi með peningana. Af hverju átti þetta að vera í lagi? Jú, vegna þess að afkoma okkar um langa framtíð átti að vera tryggð. Á þessu kvöldi hlýtur maður að efast um að þetta hafi verið rétt hjá stjórnarmeirihlutanum. Ef afkoma okkar var tryggð í þessum samningum um langa framtíð og við höfðum efni á að veita hinum erlendu kröfuhöfum þessa gríðarlegu afslætti, hvernig stendur þá á því að stjórnarliðarnir koma við fjárlagagerðina með miklar og góðar meiningar en segjast enga peninga eiga fyrir þeim?

Geta einhverjir stjórnarliðar hér í húsinu gert grein fyrir því hvernig þetta hangir saman? Hvers vegna segist hv. þm. Brynjar Níelsson gjarnan vilja gera betur fyrir spítalann og gjarnan vilja gera betur fyrir aldraða og öryrkja en fór samt þá leið að veita erlendum kröfuhöfum sérstakan afslátt frá skattheimtu sem annars hefði skilað ríkissjóði miklu meiri tekjum á næsta ári? Vill hv. þm. Brynjar Níelsson útskýra fyrir okkur hvernig í þessu liggur, af hverju við höfðum ráð á því að gefa afslátt frá stöðugleikaskattinum en höfum ekki ráð á grunnrekstri Landspítalans, bara framreikningnum á milli ára? Nei, þetta gefur verulegt tilefni til að efast um áætlunargerð stjórnarinnar í þessu efni. Enn meiri áhyggjur hlýtur það að vekja okkur um komandi ár því að þetta er aðeins það sem við sjáum örfáum mánuðum eftir að þeir töldu að hér væri allt komið fyrir vind. Hafa þeir þá ekki gert ráð fyrir því að hér gætu orðið einhver áföll? Hvað nú ef bensínverðið hækkar? Ef aflagæftir eru ekki nægar? Ef fiskverð á mörkuðum sem er með besta móti lækkar eða einhver af hinum mörgu ytri skilyrðum sem við í sjálfu sér ráðum ekki eru okkur ekki hagfelld á næsta ári? Verðum við þá í enn meiri vanda? Var ekkert borð fyrir báru þegar menn ákváðu að gefa kröfuhöfunum afslátt?

Nei, mér virðist alveg einsýnt að ríkisstjórnin hefur sjálf teflt fjárlögum fyrir næsta ár inn í þau vandræði sem frumvarpið ratar í því að ríkisstjórnin hafði samþykki Alþingis fyrir skattheimtu sem hefði gert miklu betur en þær tillögur gera sem hér eru á borðinu. Þær hefðu einfaldlega gert mönnum kleift að gera það sem gera þarf. Þess vegna skulda stjórnarliðar auðvitað skýringu á því hvers vegna þessi staða er núna komin upp aðeins örfáum mánuðum eftir að þeir töldu sig vera með pálmann í höndunum og hagsmuni Íslands tryggða um langa framtíð, að þeir eigi ekki peninga fyrir brýnustu þörfum Landspítalans og sjálfsögðum kjarabótum fyrir tugi þúsunda Íslendinga, aldraða og öryrkja.