145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þekkjum aðferðafræði öfgahægrimanna í þessu efni, við það að svelta opinberar stofnanir til að gera þau vandræði sem af sveltinu stafa að sjálfsagðri röksemd fyrir því í framhaldinu að einkavæða. Það er auðvitað augljóst ef menn ætla að skilja á þennan hátt við Landspítalann að þá er ekki hægt að skilja það öðruvísi en að menn vilji koma spítalanum í vandræði.

Það veldur áhyggjum, eins og ég lýsti í ræðu minni í gær, að á gríðarlega erfiðum niðurskurðartímum þegar þurfti að takast á við mikinn niðurskurð á spítalanum fór þó fram um það samtal milli spítalans og fjárveitingavaldsins. Þá var rætt um það sem spítalinn hafði fram að færa og menn komust að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig ætti að reyna að vinna úr hinni erfiðu stöðu. Það er í rauninni alveg óskiljanlegt að núna þegar góðærið er í blóma skuli menn vera komnir í átök við forustu spítalans um sjálfsagða hluti.