145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eitt kjörtímabil sat ég í fjárlaganefnd, 2003–2007, og auðvitað er það þannig við fjárlagagerð að fólk skiptist á skoðunum. Það getur hvesst í umræðum og menn geta gagnrýnt hverjir aðra en ég held að það sem mönnum hafi brugðið við í þessu hafi verið niðrandi ummæli við embættismenn sem eru einfaldlega að reyna að gera grein fyrir stöðunni eins og þeir sjá hana. Orðanotkun á opinberum vettvangi um þá sem gera grein fyrir máli sínu hjá fjárlaganefnd undir yfirskriftinni andlegt ofbeldi á ekkert erindi í málefnalega umræðu og er því miður þeim sem að því stóðu til vansa og því miður þinginu líka því að þetta er forusta hér í þinginu sjálfu.