145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir áhyggjur hv. þingmanns. Einn meginlærdómurinn af íslenska efnahagshruninu er að við létum ójöfnuð verða of mikinn í samfélaginu með skelfilegum afleiðingum. Áherslurnar eftir hrun voru þess vegna eindregið á jöfnuð og við höfum nú fengið staðfestingu á því að í lok kjörtímabils ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var jöfnuður orðinn hér með því mesta sem gerðist. Síðan þá hafa hins vegar allar skattaaðgerðir stjórnarmeirihlutans miðað að þeim sem best standa í landinu, aflétta auðlegðarskatti, létta skatti af útgerðinni og, það sem ótrúlegast má telja, leggja matarskatt á almenning í landinu. Enn bólar ekkert á sumum þeirra mótvægisaðgerða sem lofað var en komu auðvitað aldrei fram.

Það er Framsóknarflokknum til ævarandi háðungar að sá skattur sem hann í orði kveðnu (Forseti hringir.) hefur aldrei viljað ljá máls á að hækka skyldi verða hækkaður í einu vetfangi bara af því að Sjálfstæðisflokkinn langaði til þess.