145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:10]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að byrja á því að hrósa hv. þm. Helga Hjörvar fyrir mikla dirfsku. Það er sú dirfska að þora að minnast á vogunarsjóði úr þessum ræðustól, sérstaklega vegna þess að hann kvartar að undan því að við höfum ekki náð í nógu mikla peninga hjá vogunarsjóðnum á sama tíma og flokkur hans sá öll tormerki á því fyrir síðustu kosningar að hægt væri að ná í nokkurn pening hjá þessum sömu vogunarsjóðum. (Gripið fram í: Nei, nei, nei.) Jú, jú, jú, þannig var það og það kom margoft fram. (Gripið fram í: Bull og vitleysa.)

Það er líka mjög athyglisvert hjá hv. þingmanni og lýsir frjóu hugmyndaafli þegar hann kemur hingað upp og túlkar það svo að góð mæting á kröfuhafafundi, 90 og eitthvað prósenta mæting, þýði það að við sækjum of litla peninga til sjóðanna. Það lýsir ótrúlega skemmtilegu hugmyndaflugi og ég þarf að hrósa honum fyrir það líka. Af hverju notum við þá ekki til að bæta kjör aldraðra og öryrkja? Af hverju notum við þessa peninga ekki í Landspítalann, eins og hv. þingmaður óskar eftir? (Forseti hringir.) Vegna þess að við erum að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Ég hélt að það væri samkomulag um það, að allir væru sáttir við að við reyndum að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Við erum að borga 80 milljarða á ári í vexti. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður ósáttur við að við nýtum það fjármagn sem kemur inn til að greiða niður vaxtakostnað ríkisins?