145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að veita andsvar við hrósyrðum um dirfsku og hugmyndaauðgi en mér finnst full ástæða til að þakka þingmanninum fyrir þau fallegu orð í minn garð.

Eigum við ekki að nota þessa fjármuni til að greiða niður skuldir? Jú, hárrétt hv. þm. Karl Garðarsson. En hugmyndin var sú að nota þessa peninga til að greiða niður skuldir í nægilega miklum mæli til að til væri í ríkissjóði fyrir nauðsynlegum útgjöldum. Þetta sýnir að það hefur ekki verið gert því að vaxtabyrðin er enn þá svo mikil að menn eiga ekki fyrir þessum nauðsynlegu útgjöldum.

Og ekki segja mér neitt, hv. þingmaður, um það hver lagði bönd á kröfuhafana. Ég flutti sem 1. flutningsmaður frumvarpið um það að taka þessar eignir undir gjaldeyrishöft og það var alla tíð skýrt að það var gert til að þeim yrði aldrei sleppt út nema íslenskir þjóðarhagsmunir yrðu tryggðir. Ég hef ástæðu til að ætla að við þurfum að skoða það vel og vandlega hvort það hafi verið gert eins og ætlast var til.