145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér fer sem hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrr á fundinum, ég hef ekkert við fundarstjórn hæstv. forseta að athuga en bind óneitanlega vonir við að sjá nýjan fulltrúa úr forsætisnefnd sitja á forsetastóli vegna þess að ég gekk hér bónleiður til búðar fyrir allnokkru síðan, kannski klukkustund eða svo, þegar ég innti þann forseta sem þá sat á forsetastóli eftir því hvaða starfsáætlun væri í gildi hér í nótt. Vegna þess að starfsáætlun þingsins er því miður sprungin og ónýt orðin ætla ég að það sé alla vega til áætlun til næturinnar og þætti vænt um ef forseti vildi bara greina okkur frá því hversu lengi hún hyggst halda fundinum áfram svo við getum skipulagt okkur bæði hér og heima fyrir með tilliti til þess og látið okkar fólk vita og svo framvegis.