145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:41]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Orðið „hefð“ er náttúrlega allt of fínt orð yfir það rugl sem hér er í gangi. Þetta er engin hefð, þetta er bara rugl, (BjG: Þetta er ósiður.) ósiður.

Nú er það þannig að stjórnarandstaðan hefur verið fús til samstarfs og fús til að liðka fyrir störfum þingsins alveg frá því að þing var sett hér í haust. Þingstörf hófust tveim vikum fyrr af tillitssemi við áætlun formanns fjárlaganefndar sem taldi sig þurfa rúman tíma til að sinna fjárlögum. Síðan mátti þingið bíða í þrjár vikur eftir að fjárlögin kæmu hér inn. Nú er kurteislega trekk í trekk verið að kalla eftir upplýsingum um verkáætlun eftir að ljóst er að hin formlega starfsáætlun er sprungin. En kvöld eftir kvöld, sjöunda kvöldið í röð eigum við að tala hér inn í nóttina yfir sofandi fólki. (Forseti hringir.) Það veldur sárum vonbrigðum, ekki síst í ljósi þess að sá forseti (Forseti hringir.) sem nú situr á stóli er skólamanneskja og ætti að kunna betri vinnubrögð.