145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér datt nú í hug Hverjum bjallan glymur þegar slegið var hressilega í bjölluna undir ræðu hv. þingmanns. En það mundi spara okkur mikinn tíma ef gefið væri upp hve lengi við eigum að vera hérna fram í nóttina, hvort við getum þá tekið einhverjar hvíldarpásur hér niðri í lúkar. Þetta er eins og á einhverjum frystitogara.

Mér leiðist sú umræða sem verið hefur hér í kvöld eins og hjá hv. þm. Karli Garðarssyni, að öryrkjar og aldraðir séu í raun búnir að fá meira en nóg, (Gripið fram í.) að þetta sé bara komið gott. (KG: Nei, það sagði ég ekki.) Ég kalla þá eftir hv. þingmanni til að koma hér … (KG: Ég sagði að … lágmarkslaun.) — Já, að þetta sé bara komið gott og það þurfi ekkert að gera betur.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um það í fjölmiðlum að það sé til fólk sem fari út á morgnana og komi aftur að kvöldi og hafi kannski ekkert betri kjör og þess vegna sé réttlætanlegt að gera ekki betur við aldraða og öryrkja. (Forseti hringir.) Hvar erum við stödd þegar umræðan er á því plani?