145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:51]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hingað einungis til að taka undir með starfsbróður mínum, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, og segja það að ég er reiðubúinn til að tala hér í alla nótt og allan morgundaginn að því tilskildu að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hingað til fundar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur krafist þess í ræðum sínum að fá að eiga orðastað við hæstv. ráðherra. En eins og fram hefur komið hefur hann gert það að helsta verkefni sínu að láta svo lítið fyrir sér fara að ekki nokkur maður taki eftir honum og það sannaðist fyrir nokkrum dögum þegar Kári Stefánsson skrifaði massífa árásargrein gegn ríkisstjórninni um heilbrigðismál og tókst að komast í gegnum þá grein án þess að muna eftir því að hæstv. heilbrigðisráðherra væri til.

Ég get trúað hæstv. forseta fyrir því að ég man eftir hæstv. heilbrigðisráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni og nú viljum við þingmenn fá hann hingað til fundar. Ég tel að það væri líka virðing við þingið ef hv. formaður fjárlaganefndar væri einnig stödd hér. Hvar er hún? Hvers vegna erum við hér án þess að fá að eiga orðastað við hana?