145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo sannarlega rétt. Það var mjög merkilegt að átta sig á að helstu framlög hæstv. heilbrigðisráðherra til breytinga þegar hann var í stjórnarandstöðu hefðu verið að lækka skatta á áfengi, tóbak, sykur og bensín. (Gripið fram í.) Það fór óskaplega fyrir brjóstið á sjálfstæðismönnum, man ég, þegar við settum sykurskattinn. Það var eins og þeir væru sérstakir umboðsmenn fyrir Karíus og Baktus. Þetta voru mikil átök. Svo lögðu þeir hann af með þeim rökum að hann hefði engu máli skipt. Það var einmitt bent á að það hefði átt að hækka sykurskattinn. Það var bent á að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði ekki gengið nógu langt til að ná lýðheilsumarkmiðum og því hefði átt að hækka skattinn.

Ég tek undir að það er skrýtið að sjá að það stendur gríðarlegur styr í samfélaginu um Ríkisútvarpið, en lífeyrismálin eru í algerum brennidepli sem og heilbrigðismálin. Stjórnendur Landspítalans, læknaráð og hjúkrunarráð og einstaka starfsmenn sjúkrahússins rísa upp og eru viti sínu fjær yfir skorti á fjárframlögum en hæstv. heilbrigðisráðherra er hvergi í þeirri umræðu. Fólk er næstum búið að gleyma því að hann sé til. Ég held að við ættum að fara að kanna hvernig gengur hjá hæstv. forseta að ná af honum tali og fá hann í þingsal.