145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hentar mörgum að etja saman hópum í svona umræðu. Sumir hafa til dæmis látið í veðri vaka að ef við tökum á móti flóttafólki þá komi það sérstaklega niður á lífeyrisþegum en það er náttúrlega forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar sem kemur niður á öllum almenningi á Íslandi. Við erum svo margoft búin að fara yfir það.

Allar þessar breytingartillögur urðu síðar að veruleika með nýrri ríkisstjórn. Lækkaður var virðisaukaskattur á gistiþjónustu þannig að við fáum minni tekjur en við ættum að vera að fá af ferðamannastrauminum. Það var lækkaður skattur á sykur o.fl., en ekki síst voru lækkuð veiðigjöld þannig að þau eru að breytast í einhvers konar málamyndagjöld. Það var hætt við að framlengja auðlegðarskatt og það er verið að lækka tekjuskattinn, ekki síst á þá sem eru í hærri tekjuskölunum. Og að voga sér síðan það sem hæstv. fjármálaráðherra gerir, að koma og láta í veðri vaka að það að örorku- og ellilífeyrisþegar fái sanngjarna leiðréttingu á sínum kjörum sé einhvers konar ógn við láglaunafólk á Íslandi. Þetta er beinlínis rangt. Það væri eðlilegra að hann sýndi þá staðfestu að fjármagna bara þessar kröfur upp á 6,6 milljarða. Það er nákvæmlega það sem tekjur ríkisins aukast um á yfirstandandi ári vegna aukinnar veltu af viðskiptum með vörur og þjónustu. Þetta er einfalt mál.