145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það má kannski segja það að maður fær ekki það sem maður vill og vill ekki það sem maður fær þegar maður sér hæstv. utanríkisráðherra mættan hérna á svæðið, af því að við þingmenn vorum nú í þetta skiptið, með fullri virðingu fyrir hæstv. utanríkisráðherra, að óska eftir hæstv. heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra til að ræða við þá um þá málaflokka sem brenna á okkur.

Einhver misskilningur hefur verið á ferðinni. Ég kem næst í ræðu og vildi gjarnan hafa þessa ráðherra í salnum, eins og örugglega fleiri sem á eftir koma, til að fjalla um þessi stóru og miklu mál sem brenna á öllum í þjóðfélaginu. Við erum ekki einangruð í þessari umræðu. Öll þjóðin fylgist með hvað er í gangi. Ætlar ríkisstjórnin virkilega ekki að gefa neitt eftir? Ætlar hún bara að halda áfram að rótast eins og naut í flagi í þessu máli?