145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram. Nú er klukkan farin að halla í tvö. Það er í sjálfu sér allt í lagi. Það eru nefndarfundir hjá mér kl. hálfníu í fyrramálið og svo sem ekki gott fordæmi að þingið standi ekki vökulögin, þ.e. að maður geti ekki hvílt sig í að minnsta kosti sjö eða átta tíma. Það verður þá bara svo að vera. Það er sársaukalaust af minni hálfu.

Hæstv. utanríkisráðherra er hér ef hann vill og getur svarað þeim spurningum sem fram eru bornar, ef hann treystir sér til þess. Nú veit ég ekki hvað fer fram á ríkisstjórnarfundum eða hvernig málin eru rædd en ég taldi að þessi mál væru sérhæfð. Þau mál sem hér hafa verið helst til umfjöllunar og fólk hefur óskað eftir umræðum um eru Landspítalinn, málefni aldraðra og öryrkja og málefni Ríkisútvarpsins. Ég dreg það ekki í efa að þau hafi að einhverju leyti verið rædd í ríkisstjórn en hversu djúpt ráðherrann treystir sér (Forseti hringir.) til að fara efnislega í þá umræðu þekki ég ekki (Forseti hringir.) en það er ekkert verra að hafa hann í þingsalnum að hlusta.