145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér fyrr í kvöld upplýsti sá þingmaður sem sat á stóli hæstv. forseta að það væri búið að gera hæstv. heilbrigðisráðherra viðvart.

Má ég þá spyrja hæstv. forseta í fullri vinsemd: Gaf hæstv. heilbrigðisráðherra einhverjar upplýsingar um það hvort hann hygðist koma til fundar?

Ég spyr hæstv. forseta líka: Finnst honum það goðgá þó að menn óski eftir því að fá að ræða við hann? Það kann vel að vera að þetta verði ein af síðustu nóttunum sem við ræðum fjárlagafrumvarpið.

Hvað segir til dæmis hv. þm. Brynjar Níelsson, starfandi þingflokksformaður? Ætlar hann bara að sitja hálfsofandi í sæti sínu án þess að gera reka að því að ná hæstv. heilbrigðisráðherra hingað til fundar við okkur? Er hann stoltur af sínum ráðherra? Það verður gaman að heyra hvað hv. þingmaður segir hér á eftir. Ég brýni fyrir hv. þingmanni að hafa fulla stjórn á umhverfinu.