145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:57]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og áherslur hennar sem einkanlega voru á hækkun bóta lífeyristrygginga. Mér leikur forvitni á að vita afstöðu hv. þingmanns til þeirra sjónarmiða sem hæstv. fjármálaráðherra rakti hér í morgun þess efnis að það væri ekki ástæða til að tryggja jafnstöðu milli lífeyrisþega og láglaunafólks vegna þess að lífeyrisþegar ynnu ekki og vegna þess, virtist hann halda fram, væri svo mikil fjölgun ungra bótaþega.

Nú kannaði ég aðeins tölurnar í þessu máli, sagði hann. Heildarfjöldi lífeyrisþega í landinu var árið 2014 47.700, þar af ellilífeyrisþegar 32.000, örorkulífeyrisþegar 16.300. Af þessum 16.300 örorkulífeyrisþegum voru einungis rúmlega 1.500 undir 30 ára aldri, karlar og konur og engin leið að sjá sundurgreint hverjir eru öryrkjar vegna þroskahömlunar, hverjir eru öryrkjar af geðrænum orsökum eða hverjir eru öryrkjar af líkamlegum orsökum.

Sú kenning hæstv. fjármálaráðherra að það séu sérstakar efnislegar forsendur til að refsa öllum lífeyrisþegum, sem eru 47.700, vegna þess að einhverjir úr hópi 1.550 manns kunni að hafa valið sér að verða öryrkjar, eins og hæstv. fjármálaráðherra lét að liggja hér í morgun, gengur ekki upp í mínum huga. Sér hv. þingmaður einhverja glóru í ummælum hæstv. fjármálaráðherra?