145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:11]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekkert að tala um hvað væri mikið eða lítið og hvað væri réttlátt eða ekki réttlátt. Ég var einfaldlega að spyrja að því hvort það sé rangt að launaþróun þessara hópa hafi fylgt launaþróun í landinu. Hv. þingmaður neitar því statt og stöðugt þrátt fyrir að allar tölur segi annað. Gott og vel. Ég ætla ekki að rífast lengur um það.

Hv. þingmaður fjallaði einnig í ræðu sinni um að við gætum gert miklu betur ef ríkisstjórnin hefði ekki afsalað öllum tekjum til ríkissjóðs. Skattar síðustu ríkisstjórnar voru miklu meiri og alls konar tekjustofnar og því er haldið fram að við séum endalaust að afsala okkur tekjum í núverandi ríkisstjórn. Hafa tekjur ríkissjóðs verið eitthvað minni núna? Hafa þær ekki aukist? Er hægt að tala um að við séum að afsala okkur tekjum þegar tekjurnar aukast ár frá ári? Af hverju skyldi það gerast? Af hverju eru þær að aukast? Ætli það hafi ekki eitthvað með hagstjórnina að gera? Hefur það ekki eitthvað með skattkerfið að gera og áhuga fyrirtækja á því að fjárfesta? Af hverju hafa þau allt í einu áhuga á því núna? Það væri fróðlegt að vita. Þetta snýst auðvitað ekkert um að afsala sér tekjum. Þetta snýst um það að við nýtum okkar tekjustofna, að hagstjórn og efnahagsstjórn sé með þeim hætti að atvinnulífið skili tekjum til ríkisins.