145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og efnisríka ræðu. Ég fagna henni að öllu leyti og staðfesti það sem hún sagði að væntanlega væri þingmeirihluti fyrir því að fara þá leið sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lýst áhuga á að fara, sem er að útvarpsgjaldið lækki ekki um næstu áramót heldur verði óbreytt fjárhæð.

Ég vil nú nota þetta tækifæri og hrósa hæstv. menntamálaráðherra fyrir þær yfirlýsingar og líka fyrir þá víðtæku pólitísku samstöðu sem hefur myndast í stjórn Ríkisútvarpsins meðal allra flokka. Það er ekki sjálfsagt á tímum sem þessum.

Ég vil misnota þetta andsvar til að hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þessu máli og segja ósköp einfaldlega eins og sagt væri á erlendu tungumáli: „Be as bold as you like.“ Það er í boði af okkar hálfu að styðja hann og hann þarf því ekki alla 38 þingmenn stjórnarliðsins að baki sér. Hann getur reitt sig á 25 atkvæði stjórnarandstöðunnar í þessu máli og hann þarf ekki nema (Gripið fram í.) sjö til viðbótar til að tryggja sér meiri hluta fyrir málinu á þingi. Það er algjör einhugur um það, held ég að ég geti fullyrt, meðal stjórnarandstöðuflokkanna.

Ég vil líka við þetta tækifæri til að halda áfram að ræða meira við hv. þingmann um aðra þætti sem við getum gert til að greiða fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins. Eitt er að taka hæstv. ráðherra á orðinu þegar hann nefndi það réttilega að ohf.-væðingin hefði líklega ekki tekist (Forseti hringir.) sérstaklega vel og eðlilegra væri að breyta þessu aftur í ríkisstofnun. (Forseti hringir.) Það gæfi þá færi á að því að taka þessar lífeyrisskuldbindingar aftur þar sem þær eiga heima og blanda þeim saman við aðrar lífeyrisskuldbindingar ríkisins.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska.)