145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:36]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil bara taka undir það sem kom fram í einhvers konar örræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar til ráðherra. Það er um að gera að hafa frjálst form hér á þessum tíma nætur.

Ég vil líka taka undir varðandi þetta ohf.-form. Mér finnst það mjög mikilvægt. Það var eitt af því sem ég gleymdi að koma inn á í ræðu minni. Það kom mjög skýrt fram nýverið hversu miklir vankantar voru á þeirri framkvæmd. Ég styð það heils hugar að við endurskoðum það form. Það er ekkert að því, ef kemur í ljós að eitthvað er ekki að virka, að kanna aðrar leiðir. Það er sjálfsagt mál. Mér finnst vera það mikið í húfi að við þurfum að finna leið sem getur náðst sátt um til þess að tryggja hér sterkan, góðan og öflugan ríkisfjölmiðil eða fjölmiðla.

Ég skynja að í þessu máli eiga margir í stjórnarandstöðunni samleið með hæstv. ráðherra. Mér finnst það gott út af því að ég veit að ekki bara ráðherrann heldur margir þingmenn og örugglega ráðherrar í stjórnarmeirihlutanum eru sammála. Kannski getum við hreinlega náð breiðri sátt um að finna eðlilega og góða lendingu á þessu mikilvæga máli.