145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég held að vert sé fyrir okkur að hugleiða af fullri alvöru: Hver er glóran í því að af öllum ríkisstofnunum, öllum opinberum hlutafélögum sem hafa verið búin til skuli lífeyrisskuldbindingar bara í einu tilviki hafa verið látnar fylgja — þær voru reyndar látnar fylgja í tilviki bankanna á sínum tíma en féllu svo aftur til ríkisins við gjaldþrot þeirra — og það sé þannig að Ríkisútvarpið eigi að bera lífeyrisskuldbindingar? Aðalskrifstofa fjármálaráðuneytisins gæti aldrei borið sínar eigin lífeyrisskuldbindingar. (Gripið fram í.) Ekki gæti Alþingi Íslendinga borið lífeyrisskuldbindingar vegna þingmanna og tekið af rekstrarfé sínu.

Ég held að það sé full ástæða til þess að hugleiða þetta mjög opið og það sé eðlilegra við ríkisstofnun eins og þessa, sem á að gegna tilteknu hlutverki, að hún sé bara ríkisstofnun og þá falli þessar lífeyrisskuldbindingar einfaldlega aftur til ríkisins. Ríkið er hvort eð er með lífeyrisskuldbindingar vegna allra starfsmanna vítt og breitt um allt ríkiskerfið og best í stakk búið til þess að meta áhættuna af því, verðmeta þær. Ég mundi halda að það væri skynsamlegasta leiðin.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir og ég tek undir það að það er einlægur áhugi margra okkar að styðja hæstv. ráðherra og skynsemisöfl í stjórnarflokkunum í málefnum Ríkisútvarpsins. Við eigum öll mikið undir að það sé alvörusamkeppni á fjölmiðlamarkaði. Við sjáum ákveðna hættu í því að fjársterk öfl sölsi undir sig hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum. Við þurfum alvörusamkeppni. Ríkið getur hjálpað til að veita hana. Allt getur þetta farið vel hvert með öðru.